Stutt stopp í Kópavogsborg

Það er kvöld í Kópavogsborg, rétt yfir miðnætti. Ég og sambýliskonan erum nýkomin heim frá Halifax úr vel heppnaðri ferð. Tannlæknirinn, nýji nágranninn okkar, er líklega fluttur inn. Hann á pallbíl. Annars stendur það helst upp úr Halifaxferðinni okkar var fólkið sem við hittum og kynntumst. Við sáum mikið af fólki og nýjum fötum, en lítið af okkar eigin farangri, þar sem hann barst okkur á sunnudagskvöldi, þegar við sjálf mættum til Kanada á fimmtudagskvöldi. Það var því alls ekki slæmt fyrir okkur skötuhjúin að vera búin að kynna okkur ferðatryggingar VISA áður en við lögðum af stað, án þess að hika vorum því búin að eyða bótaupphæðinni þrisvar sinnum þegar við loksins fengum töskurnar.

Ég er því nýbúinn að klára að koma nýjum fatnaði mínum fyrir og taka upp allan fatnaðinn sem ég braut samviskusamlega niður, ónotaðan, upp úr töskunum. Frammi á gangi bíður hinsvegar taskan á ný, með nýjum farangri þar sem að í fyrramálið fer ég til Boston og seinnipartinn á morgun áfram til New York. Þar verð ég yfir nóttina og var rétt í þessu að detta í hug að kíkja í leikhús og er því að leita að einhverri sniðugri sýningu á netinu, annars neyðist ég til þess að fara á hin frægu miðvikudagstjútt með hommunum á Manhattan. Hvoru tveggja kæmi sér einkar vel.

Hitti annars vorboðana mína tvo í kvöld, Helga Steinar og Torbjorn, sem búa í Árósum en eru á Fróni á sumrin. Þeir voru mættir galvaskir í Laugar og eftir stutt spjall var búið að bjarga plönunum fyrir föstudagskvöldið sem endar á reykvískri og reyklausri sveiflu niðri í bæ. Ef að líkum lætur ætlum við systkinin í útilegu á laugardeginum, fjögur saman, mér þykir líklegt að Vík verði fyrir valinu.

Annars hlakka ég svo til að segja ykkur frá Kanada. Þetta eru snillingar sem byggja þetta land, allavega Novia Scotia og Halifax. Ég er farinn að lúlla, langur dagur á morgun.


Stjörnur Alþingis

Í síðustu viku bankaði rannsóknarlögreglumaðurinn af efri hæðinni hjá okkur hjónaleysunum. Ég var nýkominn heim úr vinnu. Ég var því hálf ruglagður eftir að Brynjar vakti mig af síðdegisblundinum. Honum getur legið lár rómurinn stundum og það vildi til að það var þannig í þetta skiptið. Hann bar upp spurningu sem ég greinilega misheyrði en áttaði mig ekki á því fyrr en seinna, þegar ég át upp eftir honum, og nokkuð hátt: Hvað segjiru Brynjar minn? Þarftu að þrífa á þér stjörnuna? Nei, ég held að það sé ekki til neitt sérstök rassasápa, en þú getur áreiðanlega notað venjulega sápu. Brynjar varð nokkuð rauður í framan og náði ekki að svara mér, heldur bara potaði mattri lögreglustjörnu framan í mig. Hann hafði því spurt hvort að ég ætti sápu fyrir stjörnuna sína, en átti þá ekki við prívatpartinn á sér heldur lögreglustjörnuna á húfunni sinni. Hann vantaði fægjilög til þess að gera hana skínandi hreina, enda væru nú að byrja æfingar fyrir heiðursvörð fyrir setningu Alþingis.

Í dag höfum við konan mín verið dugleg við að pakka niður. Enda er stefnan tekin á Halifax í tæpa viku seinnipartinn í dag. Það eru fimm klukkutímar í brottför en við erum að fullu tilbúin. Við höfum pantað okkur rauðan Ford Mustang blægjubíl og keyra um sveitir Novia Scotia, ætlum að fara í frægasta leikhús Kanadamanna að sjá Beauty and the Beast, borða á skemmtilegum veitingastöðum og jafnvel kíkja á tónlistarhátíð sem þar er í gangi. Ég var búinn að senda tölvupóst á Halifax Pride og biðja um að hátíðin yrði færð frá júlí yfir til þessarar helgar, en þeim fannst fyrirspurn mín skemmtileg en óframkvæmanleg.


Amman aftur

Ég hitti ömmu Dewey aftur um daginn. Ég sagði við hana þegar ég kvaddi hana í Keflavík síðast að ég myndi nú kannski bara koma að sækja hana til Boston í næsta mánuði. Hún varð nú bæði hissa og glöð þegar hún sá mig taka á móti sér þegar hún gekk um borð í flugvélina. Svo ræði hún sér hreinlega ekki af kæti þegar ég mundi hvað hún hét, heilsaði henni því með nafni, tók af henni töskuna og leiddi hana til sætis. Ég held hreinlega að ég hafi eignast nýja vinkonu til lífstíðar enda sagði hún mér seinna á fluginu alla ferðasöguna. Svona fyrir þá sem vilja vita, þá ætlar þessi nýja vinkona mín ekki að heimsækja dóttur sína og dótturson að ári, heldur ætla þau að koma til hennar. Ég bað hana vinsamlegast um að senda Dewey með flugfélaginu mínu. Það fannst henni vel til fundið, sérstaklega ef ég myndi sækja dótturson hennar.

Annars átti Pétur vinur minn þrítugsafmæli í gær og hélt af því tilefni heljarinnar boð heima hjá sér. Ég aðstoðaði örlítið við undirbúning, meðal annars að útbúa sushi og litlar rækjukökur. Að boðinu loknu var farið niður í bæ þar sem ég rakst á tvo áhugaverða drengi sem ég þekkti ekki en skælbrostu þegar þeir sáu mig. Þeir komu strax til mín, sögðu mig hafa verið flugfreyjuna sína á fluginu sínu um daginn og þeir yrðu bara að þakka mér fyrir gott flug. Mér þótti vænt um þetta, enda voru þeir báðir fjallmyndarlegir, ekki oft sem fólk sýnir þakklæti sitt. Þetta minnti mig örlítið á þá stund þegar ég að skemmta mér á Sólon sumarið 2003 og stelpa vindur sér að mér til þess að tjá mér það að hún elski hreinlega að lesa bloggið mitt. Ég hafði aldrei séð stelpuna áður eða vissi nokkur deili á henni. Ertu hér enn ljúfan mín?

Annars þætti mér gaman að því ef fólk ritaði nafn sitt í gestabókina, ef það hefur ekki látið vita af sér í athugasemdakerfinu sem fylgir hérna hverri færslu. Þið vitið hver þið eruð, þið eruð áreiðanlega sneggri að kvitta en ég að skrifa fyrir ykkur. Hlakka til þess að vita hverjir mæta hingað.


Evrópukeppni frá Ameríku

Það er sko sannarlega enginn blús í gangi þegar þetta er skrifað heldur Evróvísonkeppnin og kosningar. Ég sit með stöpula tengingu í Orlando að horfa á síðustu lögin á sama tíma og ég klæði mig upp fyrir heimferðina. Ég kem heim í fyrramálið þegar niðurstöður kosninganna liggja vonandi fyrir. Ég kaus fyrir nærri þremur vikum þegar ég hafði ákveðið mig. Ég hreinlega ákvað að drífa mig til utankjörfundar áður en að ég yrði sturlaður af valkvíða.

Ég sagði það fyrstu mánuðina mína í starfinu mínu sem flugfreyja að ég myndi ekki hætta í þessari vinnu fyrr en eitthvað barn myndi teikna handa mér mynd og gefa mér. Það gerðist í gær. Íslensk stelpa málaði og merkti mér mynd á sama tíma og hún þakkaði mér fyrir skemmtilega flugferð. Fíll að vökva blóm var myndefnið sem varð fyrir valinu. Vélin var að þessu sinni yfirfull af vinum vina minna eða ættingjum, sem allir gáfu sér á tal við mig sem gerði rúmlega sjö tíma flugið til Orlando skemmtilegra og eftirminnilegra.

Evróvisionkeppnin finnst mér skemmtileg í ár þó að mér finnist ljósasýningin á sviðinu yfirþyrmandi. Mér finnst Díana prinsessa frá Hvíta-Rússlandi fallegust. Ég vildi óska að ég ætti jafn meðfærileg "trolley" og Bretarnir. Ég vildi að finnski kynnirinn myndi kynna eitthvað meira fyrir mér en þessa keppni. Og þá meina ég ekki hommafælna íslenska kynnirinn Sigmar, sem má hætta að skemma keppnina fyrir mér með hommafælni sinni.


Blús

Þegar maður er blúsaður þá er eins og maður verði áskrifandi að hrósyrðum frá góðum vinum. Þetta fékk ég sent í gærkvöldi, alveg á hárrétum tíma:

þú hefur plön
þú ert ákveðinn
lætur ekki stjórnast að öðrum, ferð þínar eigin leiðir
ert stabíll, besti vinur sem hægt er að óska sér
þú ert úr sveitinni
þú ert ekki þessi venjulegi hommi
þú hefur framtíðarplön
þú ætlar að gera góða hluti og ert að gera góða hluti
fólk lítur upp til þín
þú ert fyrirmynd margra
á ég að halda áfram?

Ég og sambýliskonan vorum að fjárfesta í ferð til Halifax í lok mánaðarins. Þjónustufulltrúinn minn í bankanum var svo æðislegur að gefa mér 20.000 vildarpunkta á sama tíma og Vörðufélagar fengu tilboð um flug til Kanada fyrir 25.000 punkta. Það liggur við að ég komi út í plús. Ég er búinn að senda póst og biðja um að það verði haldið GayPride þar ytra helgina sem ég verð þarna úti, svona í tilefni þess að ég sé að koma. Hef ekki fengið svar en ég er enn vongóður, hef heyrt að Kanadabúar séu vænsta fólk. Svo fundum við okkur svo flott hótel, þar sem súkkulaði á herbergjum og hannaðir baðsloppar eru staðalbúnaður. Við báðum um íbúð ofarlega og með sjávarútsýni. Einnig var hægt að biðja um leikgrind, hún fengist ókeypis, en því höfnuðum við. Vonandi fáum við bara meira súkkulaði í staðinn.


Áhugavert samferðafólk

Mér þykir óstjórnlega gaman í vinnunni minni. Í upphafi hvers vinnudags set ég mér nýtt persónulegt markmið sem ég framfylgi þann daginn. Markmiðið getur verið af ýmsum toga en yfirleitt er það til þess að gefa sjálfum sér spark í rassinn og vera á tánum. Ég vona svo að ómeðvitað taki ég upp þessa breytta hegðan ósjálfrátt næstu daga.

Eitt skemmtilegasta viðfangsefnið mitt eru viðskiptavinirnir. Ef ég hef staðið mig vel undanfarið leyfi ég mér að velja verkefni dagsins í þeim málaflokki. Ég ákvað að einn daginn skyldi ég gefa mér af einum viðskiptavini sem væri einn og myndi grípa því feginshendi að spjalla við mig. Eftir að allri formlegri þjónustu lauk var ég búinn að átta mig á því að það væri sænsk kona sem væri líklega sá viðskiptavinur sem tæki því fegnust að ég gæfi mér að henni.

Ég held að ég hafi setið hjá konunni í háan klukkutíma, en hún reyndist vera á leið til Boston í sína árlegu ferð að heimsækja dóttur sína og barnabörn. Hún hefur ferðast þetta með fyrirtækinu mínu á fimmta ár, eða alveg frá því að maðurinn hennar féll frá, hann vildi alltaf fljúga í gegnum London og fljúga með Virgin, en hún er ekki nógu sleip í ensku, treystir sér heldur ekki í gegnum þennan stjóra flugvöll þar sem enginn talar sænsku. Þess vegna líkar henni svo vel við fyrirtækið mitt, þar sem allir skilja sænskuna hennar og hún er aldrei fyrir. Maðurinn hennar dó úr krabba en þegar hann dó leigði hún út hluta hússins til þess að þurfa ekki að flytja, því henni þykir svo vænt um garðinn. Henni líkar vel í Boston, en leiðinlegast þykir henni að geta ekki talað enskuna nógu vel.

Þegar lengra komst á samtalið og hún hafði spurt frétta af mér líka sagði hún mér að baranbarn sitt væri leikari og léki Dewey í Malcolm in the Middle, hvort ég kannaðist við þáttinn. Ég hélt það nú og mikið var hún glöð, var ekki viss um að þátturinn væri sýndur á Íslandi. Augun blikuðu held ég dýpra eftir að hún vissi að sonur sinni væri ekki bara þekktur yfir gjörvöll Bandaríkin, heldur líka á Atlantshafsskerinu rétt undir heimsskautsbaug. Dewey sem heitir Erik réttu nafni og er að verða 15 ára. Tökum á þátttunum er nú lokið en eitthvað er um ósýnda þætti. Sænska amma á alla þættina, en hún horfir á þá sænsk textaða.

Rétt fyrir lendingu í Keflavík höfðum við nýja vinkona mín fyllt út tolla og innflutningspappírana fyrir hana, svo hún næði nú að slaka á í næsta flugi og lesa bókina. En hún var mikið fegin að geta sparað hana á þessum fluglegg, því að bókin væri það spennandi að hún myndi annars ekki endast alla leiðina til Boston. Sænska amma ætlar að vera þar í sjö vikur. Það gladdi mig mikið hvað hún hvaddi mig með hlýju augnarráði og aðdáun þegar hún greip þéttingsfast í höndina á mér og kvaddi mig á fallegri sænsku.


Matareitrun

Hafið þið séð Ugly Betty á RÚV? Ég hef séð hana í sjónvarpinu en ég hef líka hitt hana í persónu, allavega tvífara hennar því hún eitraði fyrir mér. Ég fékk matareitrun fyrir viku á svakalega skemmtilegum amerískum "diner" þar sem sjöundi áratugurinn er stemningin og þemað. Umræddar Betty-jar deildu sömu hárgreiðslu, gleraugum og spöngum. Ég brosti framan í hana eins og væri að brosa framan í myndarlegasta farþegann um borð. Engan grun hafði ég um að Betty kæmi til með að eitra fyrir mér. Engan grun hafði hún um að ég léti alla vita af bleiku spöngunum hennar á Íslandi.

Á meðan ég og Halla samstarfskona mín biðum eftir burger og shake sáum við hvar önnur borð greiddu í glymkassa fyrir skemmtileg lög sem hljómuðu um allan staðinn. Þegar hvert borð fékk sitt lag stóð fólk upp og dansaði. Okkur fannst þetta alveg tilvalið og vorum ekki lengi að snara okkur upp og kaupa okkur eitt lag. Við slógum í gegn þegar við tókum John Travolta spor undir laginu Cocobana, en seinna áttum við okkur á því að það voru bara börn á öðrum borðum sem sáu um danssporin. Við höfðum því náð gífurlegri athygli gesta og starfsfólks.

Það var því ekki fyrr en ég var kominn heim að ég áttaði mig á því að Betty hafði eitrað fyrir mér. Það eina sem mér varð hugsað um á meðan ég faðmaði golíatið voru bleiku spangir Bettyjar. Sem betur fer voru átökin það mikil í hvert skipti að súr vökvi rann fram með augunum þannig að ég náði ekkert að sjá, enda var ekkert spennandi að sjá í þessum átökum. Súri vökvinn bjargaði því að ég hef enn bleiku spangirnar grafnar í heilahvelið, en ekki hamborgari og shake á vitlausri leið út úr líkamanum.


Akureyri

Ég var pínulítið flippaður um síðustu helgi. Seinnipart laugardags dreif ég mig norður með flugi til þess að fara á leiksýningu hjá Bjarna vini mínum. Hann er í útskriftarhópi leiklistarskólans og mér fannst það alveg tilvalið að nýta mér fríðindi mín í starfi til þess að sjá verkið. Bjarni kom út á völl og tók á móti mér, en þar sem ég hafði tekið flugvél svo seint þurfti hann eiginlega að fara beint upp í leikhús að undirbúa sig. Á meðan hafði ég tækifæri til þess að fara á Hamborgabúlluna, ganga um bæinn, telja kirkjutröppurnar og sjá hvort ég myndi ekki hitta einhverja sem ég þekkti. Það gerðist ekki.

Leikritið var mjög vel heppnað og það var tekið mjög persónulega á móti mér, konan í miðasölunni heilsaði mér með nafni þar sem að Bjarni var búinn að tilkynna komu mína. Ég átti að fara beint í búningaaðstöðuna til þess að eiga orð við Bjarna fyrir sýningu. Það var nefnilega þá sem að afdrífarík hugmynd kviknaði, en það var að drífa sig í Hrísey strax eftir sýningu til þess að fara á tónleika sem Rás2 stendur fyrir með Lay Low, Ólöfu og Georgi.

Eftir að sýningu lauk og á að giska helmingur leikhúsgesta hafði yfirgefið leikhúsið voru flestir leikarar ásamt mér komnir fram á hlaðið og dreifa sér í bíla til þess að ná ferjunni út í Hrísey. Ég og Bjarni, forsprakkar hugmyndarinnar, vorum í síðasta bílnum sem var nokkuð seinn fyrir. Það þurfti að stoppa á bensínstöð, einn stökk út og dældi, annar hljóp inn að borga og ég fór yfir götuna að kaupa pulsu og kók á línuna. Allir komnir upp í bíl á mettíma og við lögðum af stað.

Við vorum rétt komin út fyrir bæjarmörkin þegar lögreglan stoppar okkur í hefðbundnu eftirliti, það var ekki fyrr en 5 mínutum seinna sem að húddið á bílnum fýkur upp og leggst á rúðuna eins og pönnukaka. Farþegar og bílstjóri ná á örskot stundu að ná oföndunarhláturskasti sem ætlaði ekki að stoppa. Það þurfti tvo til þess að draga niður húddið, setjast ofan á það og beygja til baka, svo það festist. Við vorum enn í ofboðslegum hlátri, litum út eins og tómatar í mennskri mynd sem áttum erfitt með andardrátt, þegar aðrir lögreglumenn stoppa okkur fyrir ofhraðan akstur. Við náðum ekki að útskýra það fyrir þeim hvers vegna það væri svo fyndið að þeir stoppuðu okkur, og ekki heldur hvers vegna bílstjórinn okkar missti sig í hnjáliðunum þegar hún steig út úr bílnum.

Við vorum eiginlega að verða nokkuð sein, hringdum í bílana sem voru á undan okkur sem tilkynntu okkur að ferjan myndi fara eftir 4 mín en við vorum líklega enn 20 kílómetra í burtu. Vinir okkar á bryggjunni voru strax komnir í samningaviðræður við ferjufólk og voru við það enn þegar skyndilega drapst á bílnum. Við ætluðum ekki með nokkru móti að koma honum í gang aftur. Eftir nokkra eftirgrenslan og vangaveltur komumst við að því að bensíndælari hópsins hafði sett bensín á diselvél bifreiðarinnar. Var því ekki að furða að drepist hafði á bílnum.

Þegar næsti bíll keyrir framhjá fengum við Bjarni far með honum í bæinn til þess að redda okkur bíl sem gæti dregið okkur til Akureyrar. Við vorum búin að gefast upp á því að fara á tónleikana. Vinkona Bjarna býr á Akureyri og hún var nú heldur betur boðin og búin að aðstoða okkur. Við leggjum fljótlega af stað, þegar undirbúningi er lokið og búið að bjarga dráttarbandi. Við vorum því þrjú í björgunarleiðangri á bílnum hennar Heiðu, þegar hann drap á sér rétt fyrir utan bæjarmörkin. Við vorum löngu hætt að hlægja þegar hér var komið við sögu. Við sáum ekkert skemmtilegt við þessar uppákomur.

Það var svo hann Þráinn, leikari hjá Leikfélagi Akureyrar, sem var ræstur út og mætti á jeppling til þess að bjarga okkur. Þráinn átti hálfrar aldar leikafmæli í fyrra og fór hægt yfir. Loks komumst við að bílnum en þá var komið niðamyrkur. Bílinn var dreginn hægt og örugglega í átt að bænum, en þegar við vorum stutt frá bænum sáum við að lögreglan hafði aftur sett upp umferðareftirlit, stoppaði alla bíla og vildi sjá ökuskírteini og annað. Rétt áður en við komumst efst í brekkuna þar sem lögreglan var slitnaði kaðalinn á milli bílanna tveggja en þar sem við vorum með líklega 10 bíla á eftir okkur og bremsur diselbifreiðarinnar virka mjög illa þegar slökkt er á vélinni sá bílstjóri aftari bílsins sig tilneydda til þess að taka fram úr okkur. Við höfðum hinsvegar hægt á ferðinni vegna væntanlegs umferðareftirlits lögreglunnar, sem að seinni bílinn hafði ekki tekið eftir.

Þau rétt ná að stoppa bílinn með bremsum en auk þess dró úr ferð bílsins vegna brekkunnar. Þau ná því á mjög hægri ferð að ræða við lögregluna út um opinn gluggann en lögreglan verður ekki vör við að dautt sé á vél bílsins. Bílinn var rétt byrjaður að renna áfram niður brekkuna hinum megin hæðarinnar, þannig að lögreglan þarf að ganga með bílnum nokkur skref en varð samt ekki enn var við neitt.

Við í aftari bílnum erum næst sem lögreglan ræðir við, en á þeim tíma sem að lögreglan ræðir við okkur, sjáum við félaga okkur í fyrri bílnum renna niður brekkuna, svo til stjórnlaust í átt að blóðrauðu umferðarljósi. Við náum flest að halda andliti en okkur léttir mikið þegar við sjáum að umferðarljósin eru orðin græn þegar þau bruna yfir ljósin og inn á bílaplan bensínstöðvarinnar. Tveir hringir í kringum bensínstöðina voru nauðsynlegir til þess að draga úr hraða bílsins og ljúka ferðinni á bílaþvottaplaninu.

Það var því ekki að undra að þegar við komum á Karólínu seinna um kvöldið spyrja samferðafélagar okkar sem voru í Hrísey og komnir til baka: Hvar hafið þið verið?

Tónleikarnir voru víst frábærir og allir sem fóru voru mjög þakklátir mér og Bjarna fyrir þessa frábæru hugmynd.

Ég fór suður morguninn eftir með fyrstu flugvél. Fyrstu.


Ekkert

Það var í gærkvöldi sem ég var staddur á Skólavörðustígnum um mitt kvöldið og leitaði að bílastæði. Það var EKKERT bílastæði laust. Þegar ég hafði lagt bílnum í öðru póstnúmeri og gengið að kaffihúsinu þar sem ég átti stefnumót var þar EKKERT borð laust. Þegar við gengum á milli staða í vandræðalegri leit að tómum sætum áttaði ég mig á því að það var EKKERT veður þetta kvöld. Það var hvorki heitt, kalt, rok né úrkoma. Það var ekkert sem hafði utanaðkomandi áhrif á kvöldið. Þetta var þægilegt.

Ég vil ekki rifja það upp hvenær það var sem ég bloggaði síðast. Það er rosalega langt síðan. Ég er búinn að vera mjög sjálfhverfur og í eigin hugarheimi með lærdóm milli þess sem ég vinn. Í dag er síðasti vetrardagurinn, mér finnst við svo mikið hæfi að hringja í hana langömmu mína í dag. Ég veit nefnilega að hún á sér heitasta ósk að það muni frjósa saman sumar og vetur í nótt. Þetta er hennar æðsta ósk á þessum degi. Ég man að hún kallaði alltaf á okkur í kaffi á sumardaginn fyrsta ef að sumar og vetur fraus saman um nóttina. Kakó með rjóma og nýbakaðar pönnukökur sem ég sá sjálfur um að sykra. Sykurinn var svo mikill á pönnukökunum, að fyrirskipan ömmu, að þegar þær eru teknar í sundur þá lekur af þeim sykursírópið og niður á þá næstu og sykurklattarnir sem ekki náðu að bráðna af hita pönnukakanna brotnuðu og hrundu á borðdúkinn. Hendurnar verða klístraðar og sírópið lekur niður á úlnliði. Þegar setið er til borðs að pönnukökuátu hjá ömmu sést vel hverjir eru að mæta þar í fyrsta skipti, þau hafa ekki dregið upp ermarnar upp fyrir olnboga. Enda reynist það nauðsynlegra að þrífa á sér hendurnar jafnvel áður en uppvaskið hefst. Þetta er nauðsynlegt.

Það er sama amma mín sem að las ofan í mig öll dönsku blöðin á kvöldin og dönsku verkefnin, á íslensku. Hún þýddi hvert einasta orð sem upp komu í verkefnunum mínum og alltaf var ég lang best undirbúinn fyrir dönskutímana eftir að hafa setið hjá henni í tvo tíma kvöldið áður. Hún þýddi öll dönsku orðin fyrir mig nema kuk, ride, pik og önnur orð sem hún bara vildi meina að hún hafði ekki hugmynd um hvað þýddu. Það var svo ekki fyrr en nokkrum árum seinna að ég skildi þessi orð eða fletti þeim upp. Þá líka skildi ég söguna sem amma hafði þýdd fyrir mig, utan allra þessara dónalegu orða.

Þess vegna fær amma símtal í dag.

Það var samt annað símtal sem ég átti í gær. Ég fór í Kringluna til þess að kaupa gjöf og vítamín. Ég á mjög erfitt með verslunarmiðstöðvar, en í hámarki kældhæðninnar og leiðindanna varð mér hugsað til vinar míns sem að smitaði mig af þessari sýn minni á verslunarmiðstöðvar. Það var því of langt símtal sem ég hringdi þennan vin minn til Malaví í allt of lélegum gæðum, með allt of miklum hlátri og skítugum sögum af hvor öðrum.

Þess vegna fékk hann símtal í gær.

Aðra daga þess á milli bíð ég eftir símtali. Símtali sem líklega kemur ekki, eða ætti ekki að koma. Það eru nefnilega sumir hlutir lífs míns sem eru þannig að eru alltaf gagnrýndir mest af vinum mínum. Sama hvaðan þessir vinir mínir koma. Er þá betra að losa sig við þennan hluta lífsins og einbeita sér að öðrum eða breyta þessum hluta. Þetta verður verkefnið mitt á milli þess sem ég læri fyrir 22 einingar og flýg þess á milli.

Gleðilegt sumar!


Stóra aðgerðavikan

Í tímatali mínu mun í framtíðinni vikan á undan Dymbilviku vera kölluð Stóra aðgerðavikan. Mun ég leitast við að Kópavogsborg taki erindi mínu vel um að í þessari viku munu borgin endurgreiða búendum allan lækniskostnað sem til fellur við þessa viku. Öll vikan var lituð að því að það stóð til að byrja að fljúga síðasta sunnudag. Takið eftir, stóð til...

Stóra aðgerðavikan byrjaði á mánudagsmorgni þar sem ég fór í mína reglulega meðferð hjá lækni, hvert skipti kostar tugi þúsunda króna í hvert skipti. Á fimmtudeginum voru fæðingarblettir á bringu og varta á fæti fjarlægð. Verkirnir voru óheyrilegir. Þeir sem þekkja til mín vita að ég verð ekki með sjálfum með mér þegar ég þarf að fara í gegnum eigin sársauka og blóð. Ég verð að manneskju sem viðheldur þeim persónuleika að jafnvel foreldrar mínir myndu afneita mér. Aðgerðavikunni lauk svo eftirminnilega á bráðamóttöku Landsspítalans eftir að hafa skorið mig á hnífi heima hjá mér í eldhúsi. Greipin milli þumalputta og vísifingurs er komin í tvennt en það er eitthvað sem að tveggja tíma bið aðfaranótt laugardags getur ekki lagað.

Mér sýnist að kostnaður við Stóru aðgerðavikuna hafi hlaupið á tugum þúsunda, auk þess að ég er ekki byrjaður að fljúga neitt. Það fer hinsvegar tvennum sögum um það hvort að ég eða væntanlegir farþegar mínir hafi verið meira svekktir. Kostirnir eru samt ótvírætt þeir að búið er að taka til í herberginu mínu og ein ritgerð barin saman á nýju eplatölvuna mína.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband