Þörfin

Afsakið síðustu færslu. Ég hefði ekki átt að vera dreifa blús út um alla netheima. Langar bara aðeins að rifja upp þegar Ólafur Ragnar bað þjóðina um tilfinningalegt svigrúm við fráfall Guðrúnar Katrínar. Ég var beðinn um svona svigrúm um daginn, það var ekki í framhaldi af neinu fráfalli.

Um daginn fékk ég óvænt sendingu frá norska Stórþinginu. Þessi sending er enn að þvælast fyrir mér og óvíst í hvað stefnir. Suma daga vil ég helst senda hana til baka til norskra skattgreiðenda en hina daga vil ég taka hana með mér hvert sem ég fer. Hvað er ég? Ha ha ha.

Fékk íbúðina mína afhenda fyrir um mánuði. Hef lokið að mestu við að mála en vitlausaðist til þess að rífa allt út af baðherginu án þess að átta mig á þrennu. Númer eitt; ég hef ekki tök á því að koma þessum viðbjóði í lóg nema út á svalir. Númer tvö; ég veit ekki hvernig ég vil að baðherbergið mitt líti út og númer þrjú; framkvæmdir eru ekki á fjárhagsáætlun. Eins gott að ég eigi þvottapoka og góða þvottavél.

Fór í eitt áhugaverðasta partý sem ég hef farið í á laugardaginn var. Það var boð fyrir einhleypa og bitra. Það var sjálfsagt að "feika" annað en algjörlega bannað að "feika" bæði. Útkoman varð einstaklega skrautleg. Allt sem að boðsgestir urðu að taka með sér voru drykkjarföng og ein bitur sambandssaga. Ég hef sjaldan skemmt mér eins vel nokkurn tíman. Frásagnargleðin skein úr hverju andliti. Sögurnar voru svo fáranlegar að skáldsögur hefðu aldrei fangað aðra eins vitleysu. Það var svo ung dama sem hlaut verðlaun kvöldsins þegar frásagnargleðin stóð sem hæðst. Ég vil meina að hefði verðlaunin verið veitt hálfum tíma síðar hefði allt staðið þarna í blóðugum átökum.

Kannski þess vegna sem verðlaunin voru veitt snögglega. Kannski var það bara gott.


Aumingjar

Einn góður vinur minn hefur margoft minnt mig á og endurtekið þá vísu sína að tilfinningar séu fyrir aumingja. Það var svo ekki fyrr en í morgun sem ég skildi vísuna hans og ég áttaði mig á því að ég hafði gjörsamlega sofnað á verðinum. Ég verð því að viðurkenna það fyrir sjálfum mér og öðrum að ég er búinn að vera aumingi undanfarnar vikur.

Ég var að koma frá Saudi Arabíu í gær. Ég er búinn að vera flugfreyja fyrir Araba í nærri viku þar ytra. Ég bjó á svæði sem var varið með þremur girðingum, skriðdrekum, hermönnum, skyttum í turnum, lögreglu og lífvörðum. Ég þarf örugglega að minna mig á það næstu vikur að búa ekki til þessa vörn í kringum mig sem ég upplifði í Saudí.

Tilfinningar eru fyrir aumingja, það var helvíti gott að vera aumingi.


Vilja ekki allir hlaupa?


Elskaðu einhvern þegar hann á það síst skilið

Það er margt sem fer í gegnum hausinn minn þessa dagana. Yfir svo mörgu er að gleðjast. Það getur verið svo erfitt að horfa á dyr lokast fyrir framan sig, en það bætist upp með þeirri gleði þegar við tökum það sem áminningu um að það eru fleiri dyr á ganginum og skyndilega getur maður staðið uppi með valkvíða, en að hafa áður gengið ganga lífsins án þess að lesa merkingar þess sem maður velur.

Ég er nýjasti íbúðareigandinn í Kópavogi. Þið megið óska mér til hamingju með það. Eftir að ég skrifaði undir kauptilboðið, átti ég örugglega þá yndislegustu helgi sem ég hef upplifað. Einhver elskaði mig þegar ég átti það síst skilið og sýndi mér það í verki. Í dag gekk ég frá fjármögnun og lánun við bankann minn, gleðin við það er ekki síðri þannig að ég býst við að komandi helgi verði yfirfull af hamingju og upplifunum.

Í vikunni fór ég í ræktina, oftar sem ekki, um kvöld. Sólin var gengið til viðar og hún skein á andlitið mitt á milli sjónvarpskjáina í salnum. Það var ekki annað hægt heldur en að loka augunum og taka á móti þessari mildu og sterku birtu með bros á vör. Á meðan svitnaði ég eins og svín á skíðavélinni. Þegar ég opnaði augun, nokkrum mínutum síðar, var ég þess áskynja að á mig horft. Ég leit við og sá þennan fallega strák sem hafði greinilega jafn mikla unun að horfa á mig og ég að njóta sólarinnar. Mér þótti vænt um það, svo ég gaf honum eitt af mínum brosum, sem var nóg til þess að hann varð vandræðalegur. Ég hélt áfram með æfinguna mína en þegar henni var lokið leit ég aftur til hans, þar sem hann roðnaði á ný enda gómaður við það aftur að horfa á mig. Ég ætla samt að gefa honum símanúmerið mitt næst í verðlaun, ef hann veitir mér aftur sömu athygli þegar við hittumst, því að þegar ég gekk framhjá honum snéri hann sér við til þess að horfa á eftir mér en fipaðist við það að hlaupa á brettinu, steig út af því og lenti á trýninu. Fólk sem getur haft húmor fyrir þessu, á það skilið að veita athygli.


Brúðkaup

Hafið þið tekið eftir því að það er farið að dimma aftur? Finnst ykkur það ekki yndislegt? Ég get bara hugsað til þess hvað það er gaman að geta aftur farið að kveikja á kertum, sofa í svölu lofti á nóttunni en ofan á allt annað styttist í flugeldasýningar á Menningarnótt og áramótunum. Á milli þessara merkilegu hátíða er svo gleðihátíðin með allri sinni gleðigöngu. Ég get bara ekki annað verið en spenntur.

Svo hef ég ekkert bloggað. Finnst ykkur það ekki yndislegt? Ég hef engu komið á blað og ekkert tjáð mig. Mikið er unaðslegt að hafa haft nóg fyrir stafni, hitt fullt af fólki, verið í sólinni, verið í vinnunni og sofið þess á milli. Ég get ekki haft það betra get ég sagt ykkur.

Ég var að ljúka við að lesa hana Pollýönnu. Hún er nýja vinkona mín. Langamma mín sendi mér hana suður með fyrstu ferð, bróðir mömmu kom með hana í poka sem amma hafði fengið send lyfin sín úr apótekinu úr Laugarási. Amma mín er nefnilega svo nýtin og sniðug, það er með eindæmum.

Um síðustu helgi var ég í brúðkaupi frænda míns og yndislegri eiginkonu hans. Þetta er eiginlega frændi minn sem er næstur því að vera minn stóri bróðir, þó ekkert eigi ég eldra systkinið. Lengi var hann mín fyrirmynd í því hvernig maður hegðaði sér, eignaðist vini og klæddi sig. Mér þótti því bæði vænt um það og sjálfsagt að taka að mér veislustjórn í brúðkaupinu hans. Athöfnin fór fram í Fella- og Hólakirkju, en partýið sjálft fór fram í Hafnarfirði. Sjálf búa þau í Kópavogsborg. Ég og Anna Vala tókum veislustjórninni okkar afar hátíðlega og vildum hafa daginn eftirminnilegan fyrir okkur og brúðhjónin. Veislugestir áttu að mæta afgangi.

Dagurinn byrjaði um miðja aðfaranótt brúðkaups. Klukkan var að ganga fjögur þegar við læddumst upp að blokkinni þeirra til þess að fara fremja spellvirki á bílnum þeirra. En engan sáum við bílinn. Af einskærri heppni sáum við að það var kveikt ljós á áttundu hæð, ég taldi mig þekkja stytturnar í gluggunum og bjölluðum á viðkomandi til þess að hleypa okkur inn í bílskýlið þar sem við við vonuðumst til þess að finna bílinn. Nágranninn hleypti okkur inn til þess að komast að bílnum. Við vorum vopnuð stórri rúllu af brúnum pappír, skærum, límbandi, fánaborðum og myndavél.

Við hófumst strax handa við að pakka inn bílnum, við veltum rúllunni undir bílinn og yfir til skiptist þangað til að hann var að öllu leyti innpakkaður. Ég lyfti bílnum þegar rúllan fór undir bílinn, því að pústið var svo lágt að hún komst að öðrum kosti ekki undir. Við notuðum límið óspart. Við límdum bréfið saman á samskeytum, festum vel í kringum spegla og í kringum allar beygjur. Bílinn var hreinlega að verða eins og ofvaxin jólagjöf.

Rétt í því keyrðu nágrannar þeirra í bílskýlið og stóðu okkur að verki. Þeim fannst við voðalega sniðug, en bentu okkur á að það væri ekki víst að þau myndu taka þessu vel þar sem að þau hefðu misst íbúðina á flot með heitu vatni þegar ofnalagnir biluðu og mjög skyndilega voru þau komin með heitan pott og gufubað í íbúðina. Parketið ónýtt og þau hafa búið við blástursofna og iðnaðarmenn síðan á miðvikudagskvöld.

Þegar bílinn var tilbúinn hófumst við handa við að skrifa fullt af skilaboðum á bílinn, til þess að þau gætu ekki rifið strax utan af bílnum, því að við gerðum þetta í þeim tilgangi að þau myndu mæta seint í hárgreiðsluna hennar. Hlátur, sem þau og gerðu.

Um kvöldið tókum við að okkur veislustjórnina og sögðum brandara. Í sannleika sagt áttum við ekki von á þessum viðbrögðum. Fólk hló að öllu því sem við höfðum fram að færa og þótti við afar hnittin og skemmtileg. Að loknu kvöldi voru flestir gestir sem komu og kvöddu okkur sérstaklega, ýmist með hlýjum orðum eða hrósi fyrir skemmtilegt brúðkaup. Einn frændi minn sagðist hafa litið á klukkuna hálf sjö og litið á hana rétt fyrir ellefu, þegar barnapían hringdi og lét vita að hún átti nú raun bara að vera til tíu...

Kvöldinu lauk með því að við keyrðum brúðhjónin mjög óvænt upp á Hótel Sögu þar sem þeirra beið herbergi sem við Anna Vala höfðum skreytt fyrr um daginn með rósarblöðum, hjörtum, mat, snyrtivörum, hversdags fötum af þeim (en iðnarðarmennirnir þeirra í blokkinni voru svo yndislegir að hleypa okkur í íbúðina fyrr í vikunni), einnotamyndavél, smokkum, heilræðum ástamt öðrum þægindum og gríni.

Kvöldið var yndislegt. Ég væri alveg til í að upplifa daginn allan aftur. Ekki var verra að Friðrik Ómar og Guðrún Gunnars komu og sungu í brúðkaupinu, en við það tilefni var ég ekki snöggur að nota tækifærið og stela fyrsta dansi af brúðgumanum. Þegar tertan var svo loks skorin stal ég stund með svaramanni til þess að skera kökuna með honum og mata hvor annan. Frændi minn og svaramaðurinn hans eru báðir myndarmenn, alls ekkert ónýtt að taka prufukeyrslu með þeim á svona stemningu.

Væri alveg til í að gifta mig ef það verður svona partý.


Stuttur strætó

Ég var að koma heim úr afmæli. Skemmtilegu afmæli. Það var farið í ýmsar keppnir, eins og limbó og pakkaleik. Ég var ekki ánægður með niðurstöðuna úr limbóinu, en við vorum tvö eða þrjú eftir þegar ég rak mig í slánna. Ég var líka búinn að rífa mig úr öllum fötum, nema bol og nærbrók, til þess að hafa betra vald á líkamanum. Þetta vakti allt gífurlega lukku, en ég vann þó ekki.

Það er margt í dag sem minnti mig á gamla tíma. Ég var þungt hugsi. Þegar maður var yngri og hlutirnir öðruvísi. Ég man til dæmis eftir því þegar foreldrar mínir virtust vera í axlarpúðakeppni í þessu fáu skipti sem við losnuðum við þau af bæ. Þessi keppni fór þannig fram að þau skiptu stöðugt um föt þangað til að annað þeirra þoldi ekki meiri þyngd á axlirnar, þá vorum við systkin og frænka (þar í hlutverki barnapíu) kvödd. Ég vona að mamma eigi ennþá stóra svarta beltið, með svakalega stóru sylgjunni sem hún reyrði utan um fölbleika samfestinginn sinn, leiðinni á árshátíð.

Var það til siðs í fleirum en minni fjölskyldu að skrúfa upp bílrúðurnar þegar verið var að mæta bíl á einbreiðu malbiki á annars tvibreiðum vegi eða að fara af þessu sama einbreiða malbiki yfir á ómalbikað. Ég man enn eftir því þegar pabbi leit aftur í aftursætið með vingjarnlegt bros, toppað með þessari vel snyrtu og fínu mottu, bendandi á það að nú væri malbikið fljótlega að koma aftur, svo að hægt væri að opna gluggana. Ég man aldrei af hverju það var svona mikilvægt eða nauðsynlegt fyrir okkur systkin að vera með þessa glugga opnaða, en ég mundi það í kvöld, þegar ég kíkti niður í bæ og sá reykingarfólki úthýst fyrir framan alla skemmtistaði.

Í lokin hvet alla sem hafa áhuga á góðum kvikmyndum að horfa á myndina Shortbus. Hún er einstaklega skemmtileg og innihaldsrík af boðskap. Í myndinni eru meðal annars tvö lög; Boys of melody og Soda shop, sem eru stórskemmtileg og nýlega í uppáhaldi hér í Kópavogi. Ég horfði á myndina með 5 öðrum góðum hommavinum mínum. Okkur þótti myndin góð og skila miklu. Eftirá að hyggja fannst mér alveg fáranlegt að hún hefði aldrei verið föstudagsmyndin á RÚV. Daginn eftir áttaði ég mig á því að samfélagið sem ég bý í myndi aldrei troða mynd upp á samfélagið með þeirri samkynhneigðu kynlífssenu sem þar er í gangi, þó að ofan í mig hafi verið matreidd gagnkynhneigt missóðalegt kynlíf ofan í mig.

Ætli samkynhneigðir megi vera jafn viðkvæmir fyrir gagnkynhneigðu kynlífi og gagnkynhneigðir eru stundum fyrir samkynhneigðu kynlífi? Er það jafnrétti?


Andvaka

Smá bros.
Eitt símtal.
Stór snerting.

Það er líkt og ekkert sé víst,
eins og ég vilji ekkert vita,
viji ekki kanna.

Hræddur um útkomuna líklega. Samt þoli ég ekki ástandið.

Ég veit ekki stöðuna,
þó allir aðrir hafi hana á hreinu,
nema ég.

Enginn sér eða trúir á framtíð,
nema ég.

Lausnir eru hvergi sjáanlegar,
eins og þetta hafi aldrei gerst áður,
vandamál annarra,
veita mér sýn á lausn mína.

Leyfið lausninni að koma til mín.


Jólagjöf á sumarsólstöðum

Ég reyni að upplife eitthvað nýtt í hverri viku. Síðustu vikur hafa verið einkar áhugaverðar og fullar af nýstárlegum hlutum. Í vikunni fékk ég til dæmis jólagjöf sem loks barst til mín frá útlöndum og skemmtilegt jólakort með. Það var eitthvað svo fallegt við það að opna jólagjöf á sumarsólstöðum. Andi jólanna og pælingar þeirra voru algjörlega aðgengilegar í þessum litla pakka. Mæli með að allir prófi þetta.

Mætti í vinnu um daginn, eins og svo oft áður. Mér brá þegar ég sá lítið umslag í hólfinu mínu. Ég leit flóttalega í kringum mig þar sem ég horfði á samstarfsfólk mitt safnast saman eldsnemma að morgni til þess að sjá hvort einhver þeirra væri að gera gys að mér. Bréfið var frá yfirfreyjum, hrósbréf frá farþega. Það þótti mér vænt um.

Fékk símtal í gær, frá strák. Hann hringdi af því ég er áhugaverður. Hann langaði að kynnast mér. Ég ákvað að leyfa honum það. Hann var áhugaverður sjálfur. Þarf að heyra í honum í dag.

Átti góðan dag með litla bróður mínum í New York. Við gerðum allt sem okkur langaði til nema að fara í þyrluflug. Litli bróðir minn var að fara í fyrsta skipti til útlanda, því að allir vita að Danmörk og Spánn teljast ekki með sem útlönd.

Ég varð hrifinn af nýrri tækni. Tækni sem tengir saman skóna mína og iPod-inn. Þessi nýja tækni reiknar út hversu langt og hratt ég hleyp á hverjum tíma, lætur mig vita með því að lækka í tónlistinni sem ég hlusta á og segjir mér nýjustu tölur frá hlaupum mínum þann daginn. Samhliða þessu hef ég opnað upplýsingasíðu um sjálfan mig á www.nikeplus.com þar sem ég skoða árangur annarra líka. Vill einhver keppa við mig í hlaupum með Nike+?


Sumarverk

Það liggur við að ég sé hálf dasaður, klukkan er rétt eftir miðnættið. Það sem mig myndi helst af öllu langa væri að leggjast niður á koddann með bókina sem Magnús Þorkell skrifaði um stjórnmál í Írak og Íran. En þar sem ég smurði andlit mitt með jógúrtmaska fyrir hálftíma og hef gert það á tíumínuta fresti síðan þá kæmi ég til með að klína sængurfötin með þessu undursamlega og kælandi kremi. Mér er því nauðugur einn kostur að rekja raunir mínar.

Ég er nefnilega búinn að eiga langa en góða daga undanfarið. Í morgun var það mitt fyrsta verk að smyrja nesti fyrir fjallgöngu á Móskarðshnjúka þann eystri en hann er 806 metra yfir sjávarmáli. Var kominn upp á topp fyrir hádegi og ofan í heitan pott í Laugardalnum áður en sólín skein heitast yfir daginn. Þar náði ég að sofna og safna enn meiri hita í andlitið og handleggi. Þegar ég var búinn að fara í sturtu svimaði mig örlítið, taldi það vera af vatnsskorti en datt ekki í hug að ég gæti verið bruninn eða með sólsting. Þannig að tvær klukkustundir í miðbæ Reykjavíkur en gjólu var eitthvað sem mér fannst bara alveg gráupplagt. Það var svo ekki fyrr en um kvöldmat og seint í kvöld þegar ég stóð í hvítum bol eins og kjáni í ísbúðarröðinni að ég vissi að ég gæti verið Tommi tómatur sem einu sinni bjó í Hagkaupum.

Í gær endaði dagurinn undursamlega með sambýliskonunni minni um miðja nótt, þar sem hún sagði mér sögur og ég bakaði brauð (brauðið sem fór upp á Móskarðshnjúk). Fyrr um daginn hafði ég verið að gera góða hluti í fótbolta með hýra fótboltaliðinu Strákafélaginu Styrmi og hlaup í Laugardal með Torbirni, vorboðanum ljúfa frá Danmörku.

Á sunnudaginn var ég í notalegri skírn hjá vinkonu minni, en þaðan rauk ég í Laugar í dágóða stund en næsta stopp mitt var hjá "Steininum" í Esjuhlíðum. Kvöldið endaði svo á Oceans 13, en við frændsystkinin höfum farið á allar myndirnar saman, alveg frá því við deildum heimili í Breiðholtinu. Annars komst ég ekki til Ísafjarðar í grillveislu Önnu Siggu og missti því af þeirri upplifun að láta Mörtu kaffisnilling sækja mig út á flugvöllinn. Ég og Siddý fórum því í staðinn í góðan göngutúr í Fossvoginum og út fyrir Nauthólsvíkina.

Ég er því nokkuð útitekinn, en finnst ég samt ekki hafa nóg. Þegar ég lít samt í spegill, lítur út fyrir að ég hafi fengið of mikið af útiveru. En eftir að hafa bætt þrisvar á jógúrtmaskann framan í sig, lít ég orðið kjánalega út. Mjólkurfitan situr framan í mér, ég er allur rauður, lít út fyrir að vera bólginn og ef ég væri nakinn, löðrandi í þessari fitu og gljáa, væri ég vel hæfur til þess að taka þátt í vaxtaræktakeppni.


Hlaupaferðir og styttri ferðir

Gærdagurinn minn var æðislegur. Hann byrjaði mjög snemma eða klukkan sex að staðartíma í New York. Ég fór fljótlega fram úr og upp úr klukkan sjö skokkaði ég af stað áleiðis upp í Central Park. Þegar þangað var komið hljóp ég af stað, hafði ekki nokkra hugmynd um hversu lengi eða hvert ég ætlaði að hlaupa. Fljótlega voru það gráar stuttbuxur sem fönguðu athygli mína og fékk mig til þess að hlaupa garðinn á enda. Ég var því rúmlega tvo tíma að hlaupa allan garðinn og velja mér mismunandi hlaupa og göngustíga til þess að þræða mig í gegnum garðinn. Mikið rosalega er mikið af fólki sem býr í New York, sérstaklega eru margir á ferðinni á morgnanna. En það eru líka margir sem hlaupa í garðinum, líka mikið af fallegu fólki. Ætli það séu ekki margir sem fara til New York og fara algjörlega á mis við þessa perlu sem Central Park er? Hafið þið til dæmis komið til New York og eytt degi þar, annaðhvort við lestur, blund eða hlaup?

Plön helgarinnar er að fara til Ísafjarðar á morgun, fyrrverandi bekkjarsystir mín býr þar sem bóndi og ætlar að bjóða til sín fjöldanum öllum í grillhátíð. Ég hlakka mjög til að hitta gömul bekkjarsystkini og borða á mig gat. Önnu Siggu er nefnilega gott heim að sækja. Á sunnudaginn er svo skírn seinnipartinn, nokkrum mínutum eftir að ég lendi aftur hér fyrir sunnan. Já, auðvitað tek ég flugið vestur og suður aftur.

Litli bróðir minn er á Ísafirði eins og er, en hann fer suður með vélinni sem ég fer vestur. Þannig að við komum til með að eiga mynd af okkur saman á Ísafjarðarflugvelli. En nú er ég hlaupinn í matarboð sem ég bauð mér í og í framhaldi af því fer ég í partý, sem ég stofnaði til í öðru heimahúsi en mínu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband