Akureyri

Ég var pínulítið flippaður um síðustu helgi. Seinnipart laugardags dreif ég mig norður með flugi til þess að fara á leiksýningu hjá Bjarna vini mínum. Hann er í útskriftarhópi leiklistarskólans og mér fannst það alveg tilvalið að nýta mér fríðindi mín í starfi til þess að sjá verkið. Bjarni kom út á völl og tók á móti mér, en þar sem ég hafði tekið flugvél svo seint þurfti hann eiginlega að fara beint upp í leikhús að undirbúa sig. Á meðan hafði ég tækifæri til þess að fara á Hamborgabúlluna, ganga um bæinn, telja kirkjutröppurnar og sjá hvort ég myndi ekki hitta einhverja sem ég þekkti. Það gerðist ekki.

Leikritið var mjög vel heppnað og það var tekið mjög persónulega á móti mér, konan í miðasölunni heilsaði mér með nafni þar sem að Bjarni var búinn að tilkynna komu mína. Ég átti að fara beint í búningaaðstöðuna til þess að eiga orð við Bjarna fyrir sýningu. Það var nefnilega þá sem að afdrífarík hugmynd kviknaði, en það var að drífa sig í Hrísey strax eftir sýningu til þess að fara á tónleika sem Rás2 stendur fyrir með Lay Low, Ólöfu og Georgi.

Eftir að sýningu lauk og á að giska helmingur leikhúsgesta hafði yfirgefið leikhúsið voru flestir leikarar ásamt mér komnir fram á hlaðið og dreifa sér í bíla til þess að ná ferjunni út í Hrísey. Ég og Bjarni, forsprakkar hugmyndarinnar, vorum í síðasta bílnum sem var nokkuð seinn fyrir. Það þurfti að stoppa á bensínstöð, einn stökk út og dældi, annar hljóp inn að borga og ég fór yfir götuna að kaupa pulsu og kók á línuna. Allir komnir upp í bíl á mettíma og við lögðum af stað.

Við vorum rétt komin út fyrir bæjarmörkin þegar lögreglan stoppar okkur í hefðbundnu eftirliti, það var ekki fyrr en 5 mínutum seinna sem að húddið á bílnum fýkur upp og leggst á rúðuna eins og pönnukaka. Farþegar og bílstjóri ná á örskot stundu að ná oföndunarhláturskasti sem ætlaði ekki að stoppa. Það þurfti tvo til þess að draga niður húddið, setjast ofan á það og beygja til baka, svo það festist. Við vorum enn í ofboðslegum hlátri, litum út eins og tómatar í mennskri mynd sem áttum erfitt með andardrátt, þegar aðrir lögreglumenn stoppa okkur fyrir ofhraðan akstur. Við náðum ekki að útskýra það fyrir þeim hvers vegna það væri svo fyndið að þeir stoppuðu okkur, og ekki heldur hvers vegna bílstjórinn okkar missti sig í hnjáliðunum þegar hún steig út úr bílnum.

Við vorum eiginlega að verða nokkuð sein, hringdum í bílana sem voru á undan okkur sem tilkynntu okkur að ferjan myndi fara eftir 4 mín en við vorum líklega enn 20 kílómetra í burtu. Vinir okkar á bryggjunni voru strax komnir í samningaviðræður við ferjufólk og voru við það enn þegar skyndilega drapst á bílnum. Við ætluðum ekki með nokkru móti að koma honum í gang aftur. Eftir nokkra eftirgrenslan og vangaveltur komumst við að því að bensíndælari hópsins hafði sett bensín á diselvél bifreiðarinnar. Var því ekki að furða að drepist hafði á bílnum.

Þegar næsti bíll keyrir framhjá fengum við Bjarni far með honum í bæinn til þess að redda okkur bíl sem gæti dregið okkur til Akureyrar. Við vorum búin að gefast upp á því að fara á tónleikana. Vinkona Bjarna býr á Akureyri og hún var nú heldur betur boðin og búin að aðstoða okkur. Við leggjum fljótlega af stað, þegar undirbúningi er lokið og búið að bjarga dráttarbandi. Við vorum því þrjú í björgunarleiðangri á bílnum hennar Heiðu, þegar hann drap á sér rétt fyrir utan bæjarmörkin. Við vorum löngu hætt að hlægja þegar hér var komið við sögu. Við sáum ekkert skemmtilegt við þessar uppákomur.

Það var svo hann Þráinn, leikari hjá Leikfélagi Akureyrar, sem var ræstur út og mætti á jeppling til þess að bjarga okkur. Þráinn átti hálfrar aldar leikafmæli í fyrra og fór hægt yfir. Loks komumst við að bílnum en þá var komið niðamyrkur. Bílinn var dreginn hægt og örugglega í átt að bænum, en þegar við vorum stutt frá bænum sáum við að lögreglan hafði aftur sett upp umferðareftirlit, stoppaði alla bíla og vildi sjá ökuskírteini og annað. Rétt áður en við komumst efst í brekkuna þar sem lögreglan var slitnaði kaðalinn á milli bílanna tveggja en þar sem við vorum með líklega 10 bíla á eftir okkur og bremsur diselbifreiðarinnar virka mjög illa þegar slökkt er á vélinni sá bílstjóri aftari bílsins sig tilneydda til þess að taka fram úr okkur. Við höfðum hinsvegar hægt á ferðinni vegna væntanlegs umferðareftirlits lögreglunnar, sem að seinni bílinn hafði ekki tekið eftir.

Þau rétt ná að stoppa bílinn með bremsum en auk þess dró úr ferð bílsins vegna brekkunnar. Þau ná því á mjög hægri ferð að ræða við lögregluna út um opinn gluggann en lögreglan verður ekki vör við að dautt sé á vél bílsins. Bílinn var rétt byrjaður að renna áfram niður brekkuna hinum megin hæðarinnar, þannig að lögreglan þarf að ganga með bílnum nokkur skref en varð samt ekki enn var við neitt.

Við í aftari bílnum erum næst sem lögreglan ræðir við, en á þeim tíma sem að lögreglan ræðir við okkur, sjáum við félaga okkur í fyrri bílnum renna niður brekkuna, svo til stjórnlaust í átt að blóðrauðu umferðarljósi. Við náum flest að halda andliti en okkur léttir mikið þegar við sjáum að umferðarljósin eru orðin græn þegar þau bruna yfir ljósin og inn á bílaplan bensínstöðvarinnar. Tveir hringir í kringum bensínstöðina voru nauðsynlegir til þess að draga úr hraða bílsins og ljúka ferðinni á bílaþvottaplaninu.

Það var því ekki að undra að þegar við komum á Karólínu seinna um kvöldið spyrja samferðafélagar okkar sem voru í Hrísey og komnir til baka: Hvar hafið þið verið?

Tónleikarnir voru víst frábærir og allir sem fóru voru mjög þakklátir mér og Bjarna fyrir þessa frábæru hugmynd.

Ég fór suður morguninn eftir með fyrstu flugvél. Fyrstu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

hahaha góð frásögn

Ólafur fannberg, 26.4.2007 kl. 08:06

2 identicon

Þú lifir á brúninni Gulli minn, snilld:)

Una (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 16:50

3 Smámynd: Marta

HAHAHAHA! Ég hló allan tímann! Af hverju er svona gaman að hlæja af óförum annarra???

Marta, 26.4.2007 kl. 20:06

4 Smámynd: Hugarfluga

Snilldarfrásögn! Ertu svona mikill óþekktarormur, strákur??

Hugarfluga, 27.4.2007 kl. 20:06

5 Smámynd: Anna Sigga

Játs, mörgu hefurðu nú lent í Gullið mitt...

Anna Sigga, 29.4.2007 kl. 16:46

6 identicon

Þetta var æðisleg færsla, og greinilega stórskemmtileg ferð. Var í hláturskasti allan tímann með ég var að lesa þetta! Það er sko aldrei logn í kringum þig

Sonja (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 21:22

7 identicon

Sælir,

Ég minni enn og aftur á félag óhepnra (er þetta rétt skrifað...) Legg til að stofnfundur verði haldinn í Rvk þegar eg kem þangað í sumar því ég Á HEIMA Á AKUREYRI og er ekki sátt við að þú hafir ekki séð þér fært að gleðja mg með nærveru þinni :p

Ragna Sif (Kiddi, Héðinn, Þórir) (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband