Þriðjudagur, 9. september 2008
Tala saman og heimili
Í gær var heldur betur tekið til hendinni í Kópavogsborg. Ekki bara var eldaður kalkúnapottréttur með hrísgrjónum, sætkartöflumauki, kókosmjöli, rúsínum og mangóchutney heldur var líka hent í skúffuköku og nokkur skinkuhorn. Það er nefnilega svo gott að geta tekið með sér svoleiðis í nesti.
Ég er semsagt farinn að búa með Önnu og Heiðrúnu, vinkonu minni og systur. Íbúðin er þriggja herbergja og stundum er þröngt hjá okkur, þetta er stundum eins og umferðarmiðstöð. Íbúðin er yfirleitt aldrei tóm en samt er enginn heima á sama tíma. Þegar loks allir eru heima er tíminn nýttur til þess að næra fjölskylduna eða fylla frystinn af bakkelsi eða skipuleggja mat og þrifnað. Nú eða þá að allir eru sofandi.
Anna er auðvitað nýkomin heim frá Kenýa og núna eru liðinn mánuður síðan hún kom heim og þetta er eins og að vera með barn í aðlögun á leikskóla. Þetta er erfitt. En til þess að fá krakkann á vestrænan tíma og í vestræna menningu var auðvitað lang best að taka hana með sér til New York, leyfa henni að fá bara algjört sjokk. Anna greyið var ekki lengi að ná sér á Manhattan þegar hún var búin að búa eitt ár í Kenýa, þar af hálft í borginni Thika þar sem hún var fyrsta hvíta manneskjan í einhvern áratug til þess að koma þangað. Það er bara spurning hvort að 34. stræti hafi enn jafnað sig eftir komu Önnu Völu til New York.
Heiðrún, litla systir mín og núverandi barn okkar Önnu Völu er byrjuð í Versló. Ég er í nostalgíjukasti við þá upplifun. Mér líður pínulítið eins og þegar ég byrjaði sjálfur í Versló. Mikið hrikalega er þetta góður tími. Ég reyni eins og ég get að leyfa Heiðrúnu að njóta þess tíma í botn.
Í gær hringdi stelpa í mig frá Tal. Hún var að reyna selja mér þá hugmynd að koma í viðskipti. Hún hafði hreinlega engar upplýsingar um mig eða mín viðskipti hjá Tal. Mér fannst þetta lélegt símtal, hún gat ekkert sagt mér og heldur ekki vitað í hvers konar viðskiptum ég ætti við þetta fyrirtæki. Hún var að bjóða mér núverandi viðskipti á núverandi kjörum. Ég bað hana um að hringja eitthvað annað.
Annars er það að frétta að ég er skotinn í Toronto. Hún er klárlega nýja New York.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 30. ágúst 2008
Veggurinn
Þeir sem hlaupa mikið þekkja hugtakið um "veginn". Veggurinn er sá tímapunktur þegar að sálin eða hið andlega þarf að yfirtaka líkamlegar þarfir eða vilja. Þetta er yfirleitt erfiður tími í hlaupinu og það tekur mislangan tíma að brjótast í gegnum vegginn. En þegar í gegnum vegginn er komið, er hægt að hlaupa endalaust. Það er yndisleg tilfinning.
Ég rakst á vegginn í dag. En ég var þó ekki að hlaupa neitt. Ég var bara heima. Allt þetta yndislega fólk reyndi að hafa samband við mig en ég talaði ekki við það. Ég er samt glaður. Ég er bara einbeittur og þreyttur, ég er að komast í gegnum vegginn. Bara svo ég geti hlaupið endalaust. Tilfinningin er eins og maður sé að hlaupa.
Vegna þess að þó maður fari í hóphlaup, þá maður hleypur einn og bara fyrir sjálfan sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 26. apríl 2008
Tilviljanir
Þegar maður byrjar bæði blogg eftir svona langt hlé og með þessari fyrirsögn er best að koma strax fram með eina staðhæfingu; "Nei, ég er ekki hættur að blogga, en ég er hættur að trúa á tilviljanir".
Síðasta sumar fór ég sem oftast út á lífið í New York. Þegar ég var langt kominn með sólana á skónum mínum og búinn að prufukeyra þolinmæði stráksins sem var að dansa við mig, samþykkti ég að fara með honum í partý ásamt félögum hans. Það voru nokkrir gulir leigubílar sem keyrðu okkur á þann stað þar sem áætlað var að halda áfram með þetta einkapartý. Á móti okkur tóku tveir þjónar með tilbúna drykki í dásamlegri loftíbúð. Útsýnið yfir Manhattan var truflað og innréttingarnar voru óaðfinnanlegar. Allt var smart og þessi hópur drengja sem ég var mjög svo skyndilega kominn í partý með voru líka mjög fallegir. Á tímabili leið mér eins og það væri heimsmeistarakeppni í samræðuhæfni, því að vel fór á með öllum og ég lenti í skemmtilegum samræðum. En aldrei var rætt um vinnu. Aldrei bar slíkt fyrirbæri á góma. Þegar líða tók á kvöldið náði ég að ræða við strákinn sem dró mig í partýið og vildi fá frekari útskýringar á því hvaða hópur þetta væri. Þar fékk ég að vita að um væri að ræða hýra hópinn sem tók þátt í uppsetningu á vetrarbæklingi heimþekkts tískumerkis.
Í byrjun mars átti ég aftur leið um New York en hafði mælt með mót við vin vinar míns. Við fórum út á lífið, dönsuðum og hittum margt skemmtilegt fólk. Það voru hinsvegar þrír vinir sem ég hitti þetta kvöld sem að stóðu án efa upp. Ég komst að því að þeir unnu í fyrra allir saman hjá sama fyrirtæki, en höfðu allir hætt þar í vinnu vegna ágreinings við yfirmann. Núna væru þeir hinsvegar atvinnulausir. Mér brá svolítið þegar þeir tjáðu mér um það að þeir hefðu unnið hjá sama fyrirtæki og drengirnir sem ég hafði lent í partý sumarið áður. Ég spurði því hvort að þeir þekktu þá sem ég mundi hvað hétu. Þá ráku þeir upp stór augu og hlátur. "ARE YOU GULLI FROM ICELAND, WE DID HEAR ABOUT YOU!"
Í janúar var ég í París. Það hafði verið ákveðið að ég fengi gistingu hjá vini vinar míns. Ég var staddur í Brussel í góðu yfirlæti hjá frænku minni þegar ég sló á þráðinn til hans og velti því fyrir mér hvort að við myndum ekki mæla okkur mót daginn eftir í París. Því var vel tekið og ákveðið að hittast klukkan eitt á ákveðinni metróstöð. Ég fór snemma fór Brussel, enda vildi ég taka daginn snemma í París. Ég dröslaðist aðeins um bæinn með töskuna í eftirdragi en fannst það eitthvað lítið smart og dreif mig því upp á metrostöðina. Hún var nær mér en ég hafði að vona, enda var ég kominn þangað rétt um ellefu. Það voru því enn tveir tímar í stefnumótið. Ég svipaðist um og valdi eitt kaffihús af örugglega tíu svipuðum á þessu svæði. Ég settist þar niður, pantaði mér kaffi og las í bókina mína. Mjög fljótlega var allt brjálað að gera á þessu kaffihúsi, fólk kom og settist, kallaði, pantaði og borðaði, spjallaði og naut lífsins. Tungumálið var svo fallegt og fólk var svo rólegt. Þetta var í miðru viku og fólk þyrptist að úr öllum áttum til þess að næra sig líkamlega og andlega í þessari hringiðju. Ég hætti að veita öllu þessu fólki athygli, enda var morðgátan í bókinni orðin ansi spennandi.
Svo gerðist það. Allt í einu var eins og ég heyrði nákvmælega ekkert hljóð í kringum mig. Bara hljóðið þegar hurðin var opnuð, bjallan glumdi í enn eitt skiptið, en hljómurinn var ákveðnari og hreinni í þetta skiptið. Ég hætti að lesa, en leit ekki strax upp. Eftir örfá andartök leit ég upp úr bókinni og sá strákinn sem stóð í hurðinni sem gerði sig líklegan til þess að arka í áttina að borði hinum megin í kaffihúsinu. Ég sagði þá nokkuð hátt og ákveðið: "You must be Anthony" - hann leit við, brosti þessu fallega brosi, tók af sér gleraugun og svaraði: "Then you must be Gulli". Samtalið hélt áfram eins og við hefðum þekkst síðan við vorum í leikskóla. Anthony var rúmum klukkutíma of fljótur á stefnumótið og hann rambaði inn á kaffihúsið sem ég sat á.
Ég fer heim frá París á mánudegi. Ég nærri missi af vélinni, sem er önnur saga. En slaka á mínu öðru heimili sem tekur mig í þetta skiptið heim til Íslands, mig sem farþega. Um kvöldið ætlaði teiknimyndahöfundur sem gerir sögur um homma að halda fyrirlestur á Íslandi. Ég komst ekki þar sem ég hafði önnur plön. Rúmri viku síðar ákvað ég að senda þessum teiknimyndahöfundi tölvupóst eftir að hafa lesið heimasíðuna hans, þar sem ég lýsi því yfir hversu leiðinlegt að það hafi verið að missa af fyrirlestrinum hans, en ég hafi líka rekið augun í það að hann hafi verið í París á föstudagskvöldinu, en það hafi ég líka verið. Hugsaði ekki meira um það. Hvorugur hafði séð mynd af hinum.
Eftir þrjú eða fjögur tölvupóstsendingar á milli okkar ákvað hann að senda mér skannaðar myndir frá ferðinni sinni til Parísar og Reykjavíkur, en hann gerir dagbók í teiknimyndaformi. Ég fletti í gegnum þessar fallegu og skemmtilegu skissur og glósur sem hann hafði búið til um ferðina sína. Mér hinsvegar krossbrá þegar ég sá á síðu fjögur sem lýsti ferðinni hans frá París til Íslands. Þar var ég á miðri síðunni, mjög vel teiknaður og nákvæmlega í þeim fötum sem ég hafði ferðast í. Fyrir neðan myndina mína stóð: "The hot guy".
Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að koma orðum að því að ég væri sá maður í næsta tölvupósti.
Eftir þrjá tíma er ég að leggja í stað mína til Tælands. Ég ætla að vera þar að flatmaga í tvær vikur ásamt Magneu. Síðasta sunnudagskvöld gat ég ekki sofnað þó að þreytan væri ólýsanlega mikil. Ég náði aldrei að sofna nógu fast, því að eitthvað í hausnum á mér vakti mig upp: "Þú verður að hafa samband við Bas".
Bas er hollenskur vinur minn sem núna býr í Prag. Við höfum hist meðal annars þrisvar sinnum á Íslandi, ferðast mikið um hér innanlands, hists í Hollandi, farið saman til Parísar og Brussel, en einnig notið sólarinnar á Spáni og borðað saman löns í Boston.
Til þess að sofna þetta kvöld þarf ég að fara framúr rúminu og skrifa á bréf: "Hafa samband við Bas", enda er eitthvað um hálft ár síðan við almennilega töluðum saman. Daginn eftir rekst ég á þennan miða, hlæ, hef lítinn tíma en ákvað að senda honum tvær línur:
Hello Bas!
How are you? Im going to Thailand next Sunday. I hope you are well.
Stubbaknús
Þinn Gulli
Það leið ekki hálftími, þangað til að Bas var búinn að hringja á innsoginu... hann er að fara til Tælands næsta þriðjudag, í tværi vikur. Þið mynduð halda að þetta væri komið gott, en hvað með að þetta sé níunda ferðin hans og þetta er í fyrsta skipti sem að hann pantar stóran bíl til þess að keyra, þannig að hann geti tekið aukafólk með sér í ferðir?
Hvað ef ég bæti við aukatvisti við tilviljanir. Gefum okkur að Magnea, samferðakona mín, hafi unnið í Austurríki þegar hún var 16 ára á hóteli og kynnst þar fullt af fólki. Magnea sé nýbyrjuð á facebook og ákvað í sakleysi sínu að athuga hvort hún fyndi einhvern frá þeim tíma sem hún vann í Austurríki.
Hvað mynduð þið segja um það að besti vinur hennar á þeim tíma er hótelstjórinn á hótelinu við hliðina á hótelinu sem við erum að fara á í Tælandi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 7. apríl 2008
Rósarblaðabað
Það er alltaf svolítið erfitt að byrja að blogga aftur eftir gott hlé. Bæði er það einhvern veginn þungt að koma sér af stað, en einnig er svo margt búið að gerast að flókið er að ákveða á hverju eigi að byrja. Sögur hafa hlaðist upp í kollinum á mér og ég hef verið einstaklega duglegur og iðinn við það að koma mér í aðstæður til þess að kynnast nýju fólki og sjá nýja staði.
Einn af þessum stöðum var Stykkishólmur. En þangað fór ég ásamt systur minni á árshátíð aukavinnunnar minnar um eina helgi. Ég og Vala vorum ekki lengi inni á hóteli þegar þangað var komið, heldur örkuðum í bæinn til þess að skoða höfnina, húsin, göturnar og mannlífið. Það var einhvern veginn alveg nóg um að gerast, það hafði verið jarðaför fyrr um daginn þannig að fánar voru dregnir að hún á hverri stöng sem kom ákveðnum hátíðarbrag á bæinn. Höfnin var falleg og róleg, snjór yfir öllu. Við þræddum göturnar og skoðum byggingarnar eins og við værum í opinberri sendiferð til úttektar á húsbyggingum í fjórðungnum.
Það sem var skemmtilegast var að sjá að ein gatan var notuð undir snjó. Henni er greinilega lokað yfir veturinn þegar snjóþungt er og þangað mokað öllum snjó af nærliggjandi götum. Gatan opnast svo sjálfkrafa þegar snjóa leysir. Einfalt, ódýrt og bráðskemmtileg hugmynd sem nota mætti víðar. Snjór er nefnilega eðlilegt veðurfyrirbæri, það gleymist oft.
Um kvöldið var þrælskemmtileg skemmtidagskrá yfir sæmilegum mat en við tók skemmtun sem að dróst fram yfir hefðbundinn morgungegningartíma í sveitum, allavega á suðurlandi. Það var því þreyttur mannskapurinn sem að tók rútunu í bæinn um hádegið, hálf- eða ósofinn. Ykkar ástkær tók sig til og var með danskennslu um það leyti sem að hótelstarfsmenn vildu ljúka hátíðarhöldum, þannig að við bættist einn klukkutími af misjöfnum útfærslum á túlkun tónanna sem stöðugt hækkuðu.
Ég náði til dæmis nokkrum myndarlegum mönnum úr bindinu sínu, opna skyrtuna sína og setja bindin á höfuðið sitt, bara svona til þess að slá upp betri stemningu.
Skemmtinefndin fór mikinn og var búin að undirbúa mjög mikið. Nokkrir fengu hefðbundin verk fyrir kvöldið, til dæmis með óvæntum uppákomum, spurningum og óeftirbeðnum álitum. Það sem var nýtt fyrir mér var að tvær fengu það hlutverk að reyna búa til skandal eða eitthvað eftirminnilegt. Einhverra hluta vegna varð ég fyrir valinu. Þeim þótti alveg tilvalið að reyna koma mér og ónefndum saman í heillagt hjónaband þetta kvöld. Við vorum til að mynda skipaðir saman í nefnd sem virtist ekki hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Síðar um þetta kvöld voru lagatextar, leikþættir og handjárn notuð til þess að koma þessu uppátæki til skila.
Langar í lokin að segja fólki sem býr í Kenýa að súrmjólk á Íslandi er kominn í plastbrúsa með skrúfuloki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 17. febrúar 2008
Feministar og boðháttur
Viðtali Evu Maríu var að ljúka við Þórólf Árnason í Sjónvarpinu. Ef mér skjátlast ekki þá er Þórólfur hinn skemmtilegasti og merkilegasti femínisti. Ég eyddi helginni einmitt með einum slíkum og umræður sem ég átti um stjórnunarhætti hefðu komist að sömu niðurstöðu með Þórólfi.
Fyrir nokkrum vikum hringdi ég í Sverri Pál á Akureyri, því ég vissi ekki hvernig ég ætti að nota sögnina að vinna í boðhætti annarri persónu fleirtölu. Með þessa mynd sagnorðsins átti Eva María ekki í nokkrum vandræðum með. Hvernig er boðháttarmyndin af sögninni að vinna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 14. febrúar 2008
Þegar lífið kemur á óvart
Þegar skyndilega kemur boð á spennandi Valentínusarstefnumót er ekki úr vegi að þakka fyrir það. Áður en ég stökk út úr húsi hringdi ég í ömmur mínar tvær sem enn eru á lífi og gaf mér góðan tíma til þess að spjalla.
Það er hrein eigingirni að dreifa ekki gleðinni þegar hún bankar svona upp á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. febrúar 2008
Skattframtal og sparnaður
Nú er sá tími að fara í hönd þar sem fólk fer að huga að skattframtölum sínum. Þetta hefur verið einstakt áhugamál mitt frá því ég fór að gera þau sjálfur, það hefur meira að segja skapst sú hefð að ég geri skattframtal fyrir nokkra einstaklinga í kringum mig líka. Mér þykir þetta áhugavert og skemmtileg framkvæmd. Það er sérstaklega gaman að gera árið upp fjárhagslega til þess að athuga hvort maður náði markmiðum sínum.
En vegna þess að núna styttist í framtalstíma, þá datt mér í hug saga frá síðasta sumri. Í ljósi þess hversu uppveðrarður ég er af samskiptum mínum við Ríkisskattstjóra munu sögur frá meginlandi Evrópu bíða eitthvað fram í vikuna.
Seinnipart síðasta sumars varð mér á að líta í kringum mig hjá öðrum fjármálafyrirtækjum en ég hef hingað til beint viðskiptum mínum til. Ég vildi endilega athuga hvort að betri kjör eða þjónusta væri að fá annars staðar. Ég til að mynda fór og hitti ráðgjafa sem að þjónustuver KB/Kaupþings/Búnaðarbankans (hvað hét bankinn síðasta sumar, man það einhver?) gaf mér tíma hjá. Þetta reyndist vera kona á fimmtugsaldri, nokkuð röggsöm en leit út fyrir að vera lifuð og nokkuð hokin. Seinna komst ég að því að hún var ekki hokin af reynslu.
Við gefum okkur góðan tíma í að fara yfir almennar staðreyndir um mig sem þangað er mættur. Síðan ætlar hún að segja mér hvað ég þarf. Hún sagði að ég þyrfti endilega að fara hugsa um framtíðina strax, ætti eiginlega strax að skella mér á pottþétta líf og sjúkdómatryggingu sem myndi endast mér fram í rauðan dauðann. Hún talaði mjög hratt og hafði greinilega áður hafið upp þessa ræðu handa strákum á þrítugsaldri. Hún vildi líf og sjúkdómatryggja mig fyrir einhverjar milljónir og henni reiknaðist til að þetta myndi ekki kosta mig meira en 47.000 krónur á mánuði. Ég sagði henni að mér þætti það nú frekar há upphæð. En hún var mér nú ekki sammála því að ég væri ekki að hugsa til framtíðar. Þessi upphæð kæmi nefnilega aldrei til með að hækka, utan þess að fylgja vísitölu neysluverðs... Ég var samt ekki sannfærður einhverra hluta vegna, þannig að hún hélt áfram: Ég yrði auðvitað að átta mig á því að konan mín, væntanleg, myndi aldrei vera með hærri tekjur en 50-60% af mínum tekjum í framtíðinni og til þess hún gæti lifað í sama gæðaflokki með börnin okkar tvo þegar ég félli frá um fertugt, þá yrði ég hreinlega að stökkva á þetta tilboð. Síðan reiknaði hún fyrir mig hvað ég myndi greiða í tryggingu fram að þeim tíma en sagði mér svo stolt hvað ég fengi í eingreiðslu þegar ég hrykki upp af eða fengi ólæknandi sjúkdóm. Þá fyrst leit hún í augun á mér, brosti þannig að ég sá tóbaksbrúnar tennurnar hennar og augun hennar gáfu mér þann dóm að ég væri fífl ef ég ætlaði ekki að taka við þessum peningum handa væntanlegri konunni minni og tveimur börnum.
Ég man hvað mér þótti þessi umræða orðin áhugaverð og skemmtileg, vitleysan var nú þegar komin í það mikinn hring að ég fann mig tilneyddan að leika mér að aðstæðunum, fyrst að það var boðið upp á frí skemmtiatriði í þessu bankaútibúi.
Ég var því með nokkrar spurningar um trygginguna, hvaða sjúkdómar væru innifaldir og slíkt. Hún útbjó nokkrar útgáfur af þessum tilboðum sínum, allt eftir því hversu mörg börn ég myndi eiga um fertugt eða hversu há eingreiðslan væri. Þetta setti hún allt skipulega í eina möppu handa mér sem ég sagði henni að ég yrði að taka með mér heim til þess skoða frekar. Hún lagði mjög mikla vinnu í þetta og var mjög feginn að söluræðan hennar væri að virka. Svo bjóst hún við að fara komast í sígópásu.
Þá varð ég að spyrja hana um sparnað og hvernig best væri fyrir mig að leggja fyrir. Ég sagði henni með smá gríni að fyrst ég kæmi til með að eyða nokkrum tugum þúsunda á hverjum mánuði í tryggingu, ætti ég að geta lagt tvo eða þrjá þúsund kalla til hliðar á sama tíma. Ég sá á henni að hún varð pirruð, eitthvað myndi lengjast í að hún kæmist í þessa sígópásu. Hún dæsti, stóð upp og sótti einhverja bæklinga. Kom svo til baka og rétti mér, notaði svo tækifærið á meðan ég gluggaði létt í þá að stinga upp í sig níkótíntyggjói sem hún hafði í handtöskunni sinni. Mér var mjög skemmt og þessi aukapása var eiginlega nauðsynleg fyrir mig til þess að undirbúa næsta útspil mitt.
Ég spurði hana eitthvað lítilega í þessa sjóði sem í boði var að kaupa áskrift í. Hún var orðin róleg aftur og svaraði mérþví af sölumennskusnilli sinni, enda var nikótínið úr jórtrinu hennar farið að skila sér út í blóðið. Eftir að hafa velt þessum sjóðum fyrir mér og fengið ráðleggingu hjá henni (sem ég tók með miklum fyrirvara) spurði ég hana hversu mikið ég ætti orðið í sjóð ef ég leggði ákveðna upphæð fyrir í hverjum mánuði þegar ég yrði 35 ára. Hún hreinlega naut þess að grípa til reiknisvélarinnar sinnar og slá öllu inn í vefforritið sem hún hafði í tölvunni sinni og prentaði út fallegar súlur handa mér.
Næst bað ég hana um að gera ráð fyrir að ég myndi taka út ákveðna upphæð þegar ég yrði 35 ára en halda áfram sparnaði þangað til ég yrði fimmtugur og hversu mikið ég ætti orðið þá. Hún glotti núna, fannst greinilega gaman að vita af einhverjum fídus í forritinu sínu sem einmitt byði upp á svona reikningskúnst og prentaði út annað blað handa mér. Ég leit spekingslega á blaðið, horfði í augun hennar og sagði henni að ganga frá þessum sparnaði strax því þetta litist mér á.
Við það hófust nokkrar pappírsaðgerðir og prentun úr tölvunni hennar. Þetta var greinilega skemmtilegasti hluti hennar við starfsins og miðað við hvað hún vandaði sig að skrautskrifa hvert einasta skjal var ég alveg viss um að þetta væri fyrsta sem hún hefði selt fyrir bankann þennan daginn þó að klukkan væri þrjú og ég búinn að vera hjá henni í nærri einn og hálfan klukkutíma.
Þegar öll blöð voru útfyllt og ég var tilbúinn að fara, sagði ég henni að ég væri svo ánægður núna. Ég væri núna búinn að gera fjárhagslegar áætlanir fyrir næstu þrjá tugi lífs míns. En hún gerði það kleyft að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af peningum þegar ég myndi ætlaði barn 35 ára gamall og gæti komið manninum mínum verulega á óvart á fimmtugsafmæli með því að taka hann í sex mánaða orlof þegar barnið væri flogið úr hreiðrinu. Stóð svo upp, tók í spaðann á henni til þess að athuga hvort hún væri á lífi því að það var nákvæmlega ekkert lífsmark á andlitinu hennar, nema þá ef ég hefði lagt eyrað upp við opið ginið á henni til þess að heyra mjög lágan andardrátt. Gekk svo út í bíl en skildi viljandi eftir möppuna á borðinu hennar þar sem hún hafði gert ráð fyrir konu, tveimur börnum og dauða um fertugt.
Um áramótin hringdi ég svo í KB/Kaupþing/Búnaðarbankann til þess að fá samband við nákvæmlega þessa sömu konu en mér var tjáð að hún ynni ekki lengur þar. Það þótti mér verra, því mig langaði svo að segja henni að ég þyrfti að láta hækka sparnaðinn hjá mér því að ég gæti vel hugsað mér að ættleiða tvö börn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 22. janúar 2008
Rómantísk helgi
Ég sit úti í Leifstöð og er að slaka á eftir að hafa tekist á við vindinn á Reykjanesbrautinni. Eftir öráa tíma verður hin útringda og kalda Amsterdam heimsótt öðru sinni á innan við mánuði. Þessi borg er farin að toga mig ískyggilega mikið til sín. En nánari útskýringar á því getið þið bara fengið síðar. Ef þið haldið að það sé grasið, þurfið þið að hugsa ykkur betur um.
Undanfarna daga hef ég verið að vinna mikið í aukavinnunni minni sem er skrifstofustarf. Ég er með nokkuð frjálsa mætingu en ég sé um ákveðið verkefni sem þarf að klára innan ákveðins tímaramma. Ég er búinn að vinna þarna í nokkur ár, en síðasta mánuðinn hef ég verið að mæta seint yfir daginn og jafnvel bara að mæta nývaknaður, ósturtaður og með allar stýrurnar. Þetta fannst yfirmanni mínum tilefni til þess að spyrja mig nánar út í hagi mína. En hún taldi nærri víst að með þessu breytta háttalagi mínu hlytu hagir mínir að hafa breyst og ástæða þess að ég ætti erfitt með að drífa mig fram úr rúminu á morgnanna hlyti að vera staðbundið verkefni.
Þess vegna var ég skráður fyrir tvöföldu hótelherbergi í árshátíðarferð þessa fyrirtækis í næsta mánuði, án þess að slíkt væri borið undir mig. Fólk ætlar að fá að sjá ástæður þess að ég leyfi mér að sofa út á morgnanna.
Helgin var annars óvenjulega góð. Ég vann allan laugardaginn (vinna upp morgnanna sem ég hef sofið út) en fór svo norður til Akureyrar í rómantíska ferð. Á laugardagskvöldinu var farið út að borða á Hótel KEA ásamt Ella, Petru, Svenna og Ýr. Stórkostlegt kvöld í alla staði þar sem að kokkarnir í eldhúsinu töfruðu fram hvern réttinn á fætur öðrum. Ég kom svo suður í gærmorgun, beint í rækt og jóga áður en ég fór aftur í vinnuna og vann fram á nótt. Er svo mættur núna í Leifsstöð til þess að hefja ferð mína um Evrópu. Amsterdam verður það á eftir, Brussel á fimmtudaginn og svo loks París á föstudag og fram yfir helgi. Í París ætlar góðvinur minn Baldur að halda upp á afmælið sitt og fjöldi manns ætlar að samfagna þar í tilefni þess.
Ég þarf hvatningu til þess að byrja aftur að blogga, allar athugasemdir hér við netskrifin mín eða í gestabók eru mjög vel þegin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 12. janúar 2008
Snjókaka
Það er búið að vera viðburðarík vika hjá mér, að vísu ekki jafn viðburðarrík og allt síðasta ár, en ágæt samt. Ég er búinn að bera marga kassa, pakka niður og koma mörgu fyrir á nýjum stöðum. Búið að vera einkar skemmtilegt. Mér finnast svona hlutir skemmtilegir.
Svo er komið föstudagskvöld, ég er úrvinda heima hjá mér, kem mér samt ekki inn í rúm. Nokkur bréf sem þarf að klára, fara yfir bókhald, moppa gólf, tengja græjur og koma sér fyrir. Sem minnir mig á þvott sem bíður í þvottavélinni. En áðan þegar ég var um það bil að koma mér í rúmið, þá byrjaði að snjóa. Mikið rosalega var snjókoman falleg. Ég gat bara ekki hugsað mér að missa af þessari fallegu snjókomu þar sem stór snjókornin féllu ofurvarlega til jarðar, svo varlega að þau varla snertu jörðina þegar þau stöðvuðu ferð sína. Þetta minnti mig á það þegar hér var alvöru vetrarveður, fólk var inniloka í húsum sínum dögum saman, skóla var aflýst nokkra daga í röð og jafnvel rafmagnsleysi.
Til þess að halda sér vakandi bakaði ég köku. Það snjóaði allan tíman sem að það tók kökuna að bakast, kælast en einnig allan þann tíma sem það tók mig að smyrja kökuna kreminu. Ísköld mjólkin og nokkrar kökusneiðar halda mér vakandi núna, löngu eftir að hætt er að snjóa. Ég er kominn í slopp og lopasokka. Næst er það bókin sem fer með mér upp í sófa, sem vonandi verður síðasti viðkomustaður fyrir rúmið.
Velkomin aftur á bloggið mitt. Gaman að sjá ykkur aftur hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Föstudagur, 9. nóvember 2007
Tilviljunarkenndur heimur
Ég á ágæta vinkonu sem býr í Róm. Við látum reglulega vita af hvoru öðru enda vorum við bæði saman í bekk í Versló og flugum saman í tvö ár hjá Icelandair. Mér þykir alltaf vænt um þessa stelpu og hún á í vönduðum samskiptum við fólk í kringum sig.
Það var bara fyrir nokkrum vikum sem að hún sat á kaffihúsi í Róm ásamt þremur öðrum Íslendingum og það fór vel á með þeim. Þeim hefur eitthvað legið hár rómurinn því að strákur af götunni stoppar og spyr þau á ensku hvort þau séu að tala íslensku. Þau játa því og spyrja hann hvers vegna hann kannist við málið. Hann segjir þeim að hann hafi kynnst íslenskum strák fyrir rúmu ári og hafi frá þeim tíma hlustað á íslenska tónlist og kynnt sér meðal annars tungumálið. Þau ræða eitthvað um íslenska tónlist og fleira, en það endar með því að honum er boðið sæti með þeim.
Það er svo ekki fyrr en nokkru seinna að vinkona mín í einhverri rælni spyr hann hvaða íslenski strákur viðkomandi hafi kynnst. Hann segjist ekki geta borið fram nafnið hans en gælunafnið sé einfalt og það sé Gulli.
Þessi fransk-svissneski strákur sendi mér því auðvitað skilaboð í vikunni til þess að fagna þessum óvæntu endurtengingum okkr og bauð mér að heimsækja sig til Suður-Afríku. Þar sem ég ætla hvort sem er á næstunni að heimsækja Önnu Völu til Kenýja ætti maður kannski að gera sér ferð til Suður-Afríku, fyrst maður er kominn á svæðið.
En ég kveð í bili, farþegar á leið til London kalla á mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)