Skattframtal og sparnaður

Nú er sá tími að fara í hönd þar sem fólk fer að huga að skattframtölum sínum. Þetta hefur verið einstakt áhugamál mitt frá því ég fór að gera þau sjálfur, það hefur meira að segja skapst sú hefð að ég geri skattframtal fyrir nokkra einstaklinga í kringum mig líka. Mér þykir þetta áhugavert og skemmtileg framkvæmd. Það er sérstaklega gaman að gera árið upp fjárhagslega til þess að athuga hvort maður náði markmiðum sínum.

En vegna þess að núna styttist í framtalstíma, þá datt mér í hug saga frá síðasta sumri. Í ljósi þess hversu uppveðrarður ég er af samskiptum mínum við Ríkisskattstjóra munu sögur frá meginlandi Evrópu bíða eitthvað fram í vikuna.

Seinnipart síðasta sumars varð mér á að líta í kringum mig hjá öðrum fjármálafyrirtækjum en ég hef hingað til beint viðskiptum mínum til. Ég vildi endilega athuga hvort að betri kjör eða þjónusta væri að fá annars staðar. Ég til að mynda fór og hitti ráðgjafa sem að þjónustuver KB/Kaupþings/Búnaðarbankans (hvað hét bankinn síðasta sumar, man það einhver?) gaf mér tíma hjá. Þetta reyndist vera kona á fimmtugsaldri, nokkuð röggsöm en leit út fyrir að vera lifuð og nokkuð hokin. Seinna komst ég að því að hún var ekki hokin af reynslu.

Við gefum okkur góðan tíma í að fara yfir almennar staðreyndir um mig sem þangað er mættur. Síðan ætlar hún að segja mér hvað ég þarf. Hún sagði að ég þyrfti endilega að fara hugsa um framtíðina strax, ætti eiginlega strax að skella mér á pottþétta líf og sjúkdómatryggingu sem myndi endast mér fram í rauðan dauðann. Hún talaði mjög hratt og hafði greinilega áður hafið upp þessa ræðu handa strákum á þrítugsaldri. Hún vildi líf og sjúkdómatryggja mig fyrir einhverjar milljónir og henni reiknaðist til að þetta myndi ekki kosta mig meira en 47.000 krónur á mánuði. Ég sagði henni að mér þætti það nú frekar há upphæð. En hún var mér nú ekki sammála því að ég væri ekki að hugsa til framtíðar. Þessi upphæð kæmi nefnilega aldrei til með að hækka, utan þess að fylgja vísitölu neysluverðs... Ég var samt ekki sannfærður einhverra hluta vegna, þannig að hún hélt áfram: Ég yrði auðvitað að átta mig á því að konan mín, væntanleg, myndi aldrei vera með hærri tekjur en 50-60% af mínum tekjum í framtíðinni og til þess hún gæti lifað í sama gæðaflokki með börnin okkar tvo þegar ég félli frá um fertugt, þá yrði ég hreinlega að stökkva á þetta tilboð. Síðan reiknaði hún fyrir mig hvað ég myndi greiða í tryggingu fram að þeim tíma en sagði mér svo stolt hvað ég fengi í eingreiðslu þegar ég hrykki upp af eða fengi ólæknandi sjúkdóm. Þá fyrst leit hún í augun á mér, brosti þannig að ég sá tóbaksbrúnar tennurnar hennar og augun hennar gáfu mér þann dóm að ég væri fífl ef ég ætlaði ekki að taka við þessum peningum handa væntanlegri konunni minni og tveimur börnum.

Ég man hvað mér þótti þessi umræða orðin áhugaverð og skemmtileg, vitleysan var nú þegar komin í það mikinn hring að ég fann mig tilneyddan að leika mér að aðstæðunum, fyrst að það var boðið upp á frí skemmtiatriði í þessu bankaútibúi.

Ég var því með nokkrar spurningar um trygginguna, hvaða sjúkdómar væru innifaldir og slíkt. Hún útbjó nokkrar útgáfur af þessum tilboðum sínum, allt eftir því hversu mörg börn ég myndi eiga um fertugt eða hversu há eingreiðslan væri. Þetta setti hún allt skipulega í eina möppu handa mér sem ég sagði henni að ég yrði að taka með mér heim til þess skoða frekar. Hún lagði mjög mikla vinnu í þetta og var mjög feginn að söluræðan hennar væri að virka. Svo bjóst hún við að fara komast í sígópásu.

Þá varð ég að spyrja hana um sparnað og hvernig best væri fyrir mig að leggja fyrir. Ég sagði henni með smá gríni að fyrst ég kæmi til með að eyða nokkrum tugum þúsunda á hverjum mánuði í tryggingu, ætti ég að geta lagt tvo eða þrjá þúsund kalla til hliðar á sama tíma. Ég sá á henni að hún varð pirruð, eitthvað myndi lengjast í að hún kæmist í þessa sígópásu. Hún dæsti, stóð upp og sótti einhverja bæklinga. Kom svo til baka og rétti mér, notaði svo tækifærið á meðan ég gluggaði létt í þá að stinga upp í sig níkótíntyggjói sem hún hafði í handtöskunni sinni. Mér var mjög skemmt og þessi aukapása var eiginlega nauðsynleg fyrir mig til þess að undirbúa næsta útspil mitt.

Ég spurði hana eitthvað lítilega í þessa sjóði sem í boði var að kaupa áskrift í. Hún var orðin róleg aftur og svaraði mérþví af sölumennskusnilli sinni, enda var nikótínið úr jórtrinu hennar farið að skila sér út í blóðið. Eftir að hafa velt þessum sjóðum fyrir mér og fengið ráðleggingu hjá henni (sem ég tók með miklum fyrirvara) spurði ég hana hversu mikið ég ætti orðið í sjóð ef ég leggði ákveðna upphæð fyrir í hverjum mánuði þegar ég yrði 35 ára. Hún hreinlega naut þess að grípa til reiknisvélarinnar sinnar og slá öllu inn í vefforritið sem hún hafði í tölvunni sinni og prentaði út fallegar súlur handa mér.

Næst bað ég hana um að gera ráð fyrir að ég myndi taka út ákveðna upphæð þegar ég yrði 35 ára en halda áfram sparnaði þangað til ég yrði fimmtugur og hversu mikið ég ætti orðið þá. Hún glotti núna, fannst greinilega gaman að vita af einhverjum fídus í forritinu sínu sem einmitt byði upp á svona reikningskúnst og prentaði út annað blað handa mér. Ég leit spekingslega á blaðið, horfði í augun hennar og sagði henni að ganga frá þessum sparnaði strax því þetta litist mér á.

Við það hófust nokkrar pappírsaðgerðir og prentun úr tölvunni hennar. Þetta var greinilega skemmtilegasti hluti hennar við starfsins og miðað við hvað hún vandaði sig að skrautskrifa hvert einasta skjal var ég alveg viss um að þetta væri fyrsta sem hún hefði selt fyrir bankann þennan daginn þó að klukkan væri þrjú og ég búinn að vera hjá henni í nærri einn og hálfan klukkutíma.

Þegar öll blöð voru útfyllt og ég var tilbúinn að fara, sagði ég henni að ég væri svo ánægður núna. Ég væri núna búinn að gera fjárhagslegar áætlanir fyrir næstu þrjá tugi lífs míns. En hún gerði það kleyft að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af peningum þegar ég myndi ætlaði barn 35 ára gamall og gæti komið manninum mínum verulega á óvart á fimmtugsafmæli með því að taka hann í sex mánaða orlof þegar barnið væri flogið úr hreiðrinu. Stóð svo upp, tók í spaðann á henni til þess að athuga hvort hún væri á lífi því að það var nákvæmlega ekkert lífsmark á andlitinu hennar, nema þá ef ég hefði lagt eyrað upp við opið ginið á henni til þess að heyra mjög lágan andardrátt. Gekk svo út í bíl en skildi viljandi eftir möppuna á borðinu hennar þar sem hún hafði gert ráð fyrir konu, tveimur börnum og dauða um fertugt.

Um áramótin hringdi ég svo í KB/Kaupþing/Búnaðarbankann til þess að fá samband við nákvæmlega þessa sömu konu en mér var tjáð að hún ynni ekki lengur þar. Það þótti mér verra, því mig langaði svo að segja henni að ég þyrfti að láta hækka sparnaðinn hjá mér því að ég gæti vel hugsað mér að ættleiða tvö börn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður :-)

Siddý (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 10:14

2 Smámynd: Anna Vala Eyjólfsdóttir

Gosh...man sko thennan dag, hef sjaldan hlegid jafn mikid. Hey er polski komin med efni a gervihnetti....aettum vid ad haekka leiguna?

luv Anna

Anna Vala Eyjólfsdóttir, 11.2.2008 kl. 13:18

3 Smámynd: Anna Sigga

HAHAHAHA!! þú ert ferlegur HAHAHAHA!!

Anna Sigga, 11.2.2008 kl. 14:49

4 identicon

Æðislegt, vildi að ég hefði hugmyndaflug í þetta í svona aðstæðum!!

Sif (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 11:20

5 identicon

Bwahahaha, hefði svo viljað vera fluga á vegg, bara fyndinn:-)

Alma Ýr (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 22:48

6 identicon

Herðu sæti minn...ætla vinsamlegast að biðja þig að gera þetta EKKI í sumar þegar ég er að vinna þarna!!!! En annars þá var þetta hin fínasta skemmtun áður en ég fer að sofa!!! hahahahah sé alveg andlitið á kellingar álftinni fyrir mér!!!!!

Yndislegir svona þjónustufulltrúar!!!!!! :) 

Erna (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband