Þriðjudagur, 1. maí 2007
Matareitrun
Hafið þið séð Ugly Betty á RÚV? Ég hef séð hana í sjónvarpinu en ég hef líka hitt hana í persónu, allavega tvífara hennar því hún eitraði fyrir mér. Ég fékk matareitrun fyrir viku á svakalega skemmtilegum amerískum "diner" þar sem sjöundi áratugurinn er stemningin og þemað. Umræddar Betty-jar deildu sömu hárgreiðslu, gleraugum og spöngum. Ég brosti framan í hana eins og væri að brosa framan í myndarlegasta farþegann um borð. Engan grun hafði ég um að Betty kæmi til með að eitra fyrir mér. Engan grun hafði hún um að ég léti alla vita af bleiku spöngunum hennar á Íslandi.
Á meðan ég og Halla samstarfskona mín biðum eftir burger og shake sáum við hvar önnur borð greiddu í glymkassa fyrir skemmtileg lög sem hljómuðu um allan staðinn. Þegar hvert borð fékk sitt lag stóð fólk upp og dansaði. Okkur fannst þetta alveg tilvalið og vorum ekki lengi að snara okkur upp og kaupa okkur eitt lag. Við slógum í gegn þegar við tókum John Travolta spor undir laginu Cocobana, en seinna áttum við okkur á því að það voru bara börn á öðrum borðum sem sáu um danssporin. Við höfðum því náð gífurlegri athygli gesta og starfsfólks.
Það var því ekki fyrr en ég var kominn heim að ég áttaði mig á því að Betty hafði eitrað fyrir mér. Það eina sem mér varð hugsað um á meðan ég faðmaði golíatið voru bleiku spangir Bettyjar. Sem betur fer voru átökin það mikil í hvert skipti að súr vökvi rann fram með augunum þannig að ég náði ekkert að sjá, enda var ekkert spennandi að sjá í þessum átökum. Súri vökvinn bjargaði því að ég hef enn bleiku spangirnar grafnar í heilahvelið, en ekki hamborgari og shake á vitlausri leið út úr líkamanum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.