Ekkert

Það var í gærkvöldi sem ég var staddur á Skólavörðustígnum um mitt kvöldið og leitaði að bílastæði. Það var EKKERT bílastæði laust. Þegar ég hafði lagt bílnum í öðru póstnúmeri og gengið að kaffihúsinu þar sem ég átti stefnumót var þar EKKERT borð laust. Þegar við gengum á milli staða í vandræðalegri leit að tómum sætum áttaði ég mig á því að það var EKKERT veður þetta kvöld. Það var hvorki heitt, kalt, rok né úrkoma. Það var ekkert sem hafði utanaðkomandi áhrif á kvöldið. Þetta var þægilegt.

Ég vil ekki rifja það upp hvenær það var sem ég bloggaði síðast. Það er rosalega langt síðan. Ég er búinn að vera mjög sjálfhverfur og í eigin hugarheimi með lærdóm milli þess sem ég vinn. Í dag er síðasti vetrardagurinn, mér finnst við svo mikið hæfi að hringja í hana langömmu mína í dag. Ég veit nefnilega að hún á sér heitasta ósk að það muni frjósa saman sumar og vetur í nótt. Þetta er hennar æðsta ósk á þessum degi. Ég man að hún kallaði alltaf á okkur í kaffi á sumardaginn fyrsta ef að sumar og vetur fraus saman um nóttina. Kakó með rjóma og nýbakaðar pönnukökur sem ég sá sjálfur um að sykra. Sykurinn var svo mikill á pönnukökunum, að fyrirskipan ömmu, að þegar þær eru teknar í sundur þá lekur af þeim sykursírópið og niður á þá næstu og sykurklattarnir sem ekki náðu að bráðna af hita pönnukakanna brotnuðu og hrundu á borðdúkinn. Hendurnar verða klístraðar og sírópið lekur niður á úlnliði. Þegar setið er til borðs að pönnukökuátu hjá ömmu sést vel hverjir eru að mæta þar í fyrsta skipti, þau hafa ekki dregið upp ermarnar upp fyrir olnboga. Enda reynist það nauðsynlegra að þrífa á sér hendurnar jafnvel áður en uppvaskið hefst. Þetta er nauðsynlegt.

Það er sama amma mín sem að las ofan í mig öll dönsku blöðin á kvöldin og dönsku verkefnin, á íslensku. Hún þýddi hvert einasta orð sem upp komu í verkefnunum mínum og alltaf var ég lang best undirbúinn fyrir dönskutímana eftir að hafa setið hjá henni í tvo tíma kvöldið áður. Hún þýddi öll dönsku orðin fyrir mig nema kuk, ride, pik og önnur orð sem hún bara vildi meina að hún hafði ekki hugmynd um hvað þýddu. Það var svo ekki fyrr en nokkrum árum seinna að ég skildi þessi orð eða fletti þeim upp. Þá líka skildi ég söguna sem amma hafði þýdd fyrir mig, utan allra þessara dónalegu orða.

Þess vegna fær amma símtal í dag.

Það var samt annað símtal sem ég átti í gær. Ég fór í Kringluna til þess að kaupa gjöf og vítamín. Ég á mjög erfitt með verslunarmiðstöðvar, en í hámarki kældhæðninnar og leiðindanna varð mér hugsað til vinar míns sem að smitaði mig af þessari sýn minni á verslunarmiðstöðvar. Það var því of langt símtal sem ég hringdi þennan vin minn til Malaví í allt of lélegum gæðum, með allt of miklum hlátri og skítugum sögum af hvor öðrum.

Þess vegna fékk hann símtal í gær.

Aðra daga þess á milli bíð ég eftir símtali. Símtali sem líklega kemur ekki, eða ætti ekki að koma. Það eru nefnilega sumir hlutir lífs míns sem eru þannig að eru alltaf gagnrýndir mest af vinum mínum. Sama hvaðan þessir vinir mínir koma. Er þá betra að losa sig við þennan hluta lífsins og einbeita sér að öðrum eða breyta þessum hluta. Þetta verður verkefnið mitt á milli þess sem ég læri fyrir 22 einingar og flýg þess á milli.

Gleðilegt sumar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta

Vá hvað þetta er frábær færsla verð ég að segja. Ég var mætt inni i eldhús hjá ömmu þinni með uppbrettaðar ermar að borða pönnukökur! Ég á líka svona svipaðar minningar frá minni ömmu.

Ömmur eru æði!

Gleðilegt sumar!

Marta, 19.4.2007 kl. 17:01

2 Smámynd: Hugarfluga

Gleðilegt sumar og risa knús, sætilíus

Hugarfluga, 19.4.2007 kl. 17:44

3 identicon

Gleðilegt sumar kútur!  Bara ein athugasemd frá Danmörku. Ride- þýðir eiginlega bara að ríða hesti, það er bolle sem maður sleppir að þýða, vilji maður ekki fara yfir siðsæmismörk.... 

Ási (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 11:06

4 Smámynd: Hugarfluga

Svona eins og þegar Íslendingurinn var að útskýra bolludaginn fyrir Dananum. "Den dag går man rundt og boller sine forældre! Bolle bolle!!" 

Hugarfluga, 20.4.2007 kl. 11:33

5 identicon

hæhæ.. góð færsla.. takk fyrir hittinginn í sundinu og alles. Rosa nice.. svo er ég sammála þér með þetta EKKERT. Það var EKKERT veður ;o) thíhí..

já og gleðilegt sumar! Það fraus svo sannarlega saman sumar og vetur og ég var voða glöð.

kremjur

Ingan

Þorbjörg Inga (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 14:37

6 Smámynd: Anna Sigga

Gleðilegt sumar Gullið mitt. Miss you

Anna Sigga, 20.4.2007 kl. 20:31

7 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Skemmtilegt að lesa þessa færslu og minnti mig á hvernig veður var á menningarnótt í fyrra. Sem sagt EKKERT veður þá heldur sem var ákaflega notalegt. Gleðilegt sumar

Brynja Hjaltadóttir, 21.4.2007 kl. 23:53

8 identicon

Hvenær fær maður að hitta þig lærdómsdrusla? Hvenær er mér boðið í kaffi? Já og hvar er eiginlega linkurinn á mig hérna? Fussum svei!

Herra Kjáni (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband