Fimmtudagur, 19. júlí 2007
Brúðkaup
Hafið þið tekið eftir því að það er farið að dimma aftur? Finnst ykkur það ekki yndislegt? Ég get bara hugsað til þess hvað það er gaman að geta aftur farið að kveikja á kertum, sofa í svölu lofti á nóttunni en ofan á allt annað styttist í flugeldasýningar á Menningarnótt og áramótunum. Á milli þessara merkilegu hátíða er svo gleðihátíðin með allri sinni gleðigöngu. Ég get bara ekki annað verið en spenntur.
Svo hef ég ekkert bloggað. Finnst ykkur það ekki yndislegt? Ég hef engu komið á blað og ekkert tjáð mig. Mikið er unaðslegt að hafa haft nóg fyrir stafni, hitt fullt af fólki, verið í sólinni, verið í vinnunni og sofið þess á milli. Ég get ekki haft það betra get ég sagt ykkur.
Ég var að ljúka við að lesa hana Pollýönnu. Hún er nýja vinkona mín. Langamma mín sendi mér hana suður með fyrstu ferð, bróðir mömmu kom með hana í poka sem amma hafði fengið send lyfin sín úr apótekinu úr Laugarási. Amma mín er nefnilega svo nýtin og sniðug, það er með eindæmum.
Um síðustu helgi var ég í brúðkaupi frænda míns og yndislegri eiginkonu hans. Þetta er eiginlega frændi minn sem er næstur því að vera minn stóri bróðir, þó ekkert eigi ég eldra systkinið. Lengi var hann mín fyrirmynd í því hvernig maður hegðaði sér, eignaðist vini og klæddi sig. Mér þótti því bæði vænt um það og sjálfsagt að taka að mér veislustjórn í brúðkaupinu hans. Athöfnin fór fram í Fella- og Hólakirkju, en partýið sjálft fór fram í Hafnarfirði. Sjálf búa þau í Kópavogsborg. Ég og Anna Vala tókum veislustjórninni okkar afar hátíðlega og vildum hafa daginn eftirminnilegan fyrir okkur og brúðhjónin. Veislugestir áttu að mæta afgangi.
Dagurinn byrjaði um miðja aðfaranótt brúðkaups. Klukkan var að ganga fjögur þegar við læddumst upp að blokkinni þeirra til þess að fara fremja spellvirki á bílnum þeirra. En engan sáum við bílinn. Af einskærri heppni sáum við að það var kveikt ljós á áttundu hæð, ég taldi mig þekkja stytturnar í gluggunum og bjölluðum á viðkomandi til þess að hleypa okkur inn í bílskýlið þar sem við við vonuðumst til þess að finna bílinn. Nágranninn hleypti okkur inn til þess að komast að bílnum. Við vorum vopnuð stórri rúllu af brúnum pappír, skærum, límbandi, fánaborðum og myndavél.
Við hófumst strax handa við að pakka inn bílnum, við veltum rúllunni undir bílinn og yfir til skiptist þangað til að hann var að öllu leyti innpakkaður. Ég lyfti bílnum þegar rúllan fór undir bílinn, því að pústið var svo lágt að hún komst að öðrum kosti ekki undir. Við notuðum límið óspart. Við límdum bréfið saman á samskeytum, festum vel í kringum spegla og í kringum allar beygjur. Bílinn var hreinlega að verða eins og ofvaxin jólagjöf.
Rétt í því keyrðu nágrannar þeirra í bílskýlið og stóðu okkur að verki. Þeim fannst við voðalega sniðug, en bentu okkur á að það væri ekki víst að þau myndu taka þessu vel þar sem að þau hefðu misst íbúðina á flot með heitu vatni þegar ofnalagnir biluðu og mjög skyndilega voru þau komin með heitan pott og gufubað í íbúðina. Parketið ónýtt og þau hafa búið við blástursofna og iðnaðarmenn síðan á miðvikudagskvöld.
Þegar bílinn var tilbúinn hófumst við handa við að skrifa fullt af skilaboðum á bílinn, til þess að þau gætu ekki rifið strax utan af bílnum, því að við gerðum þetta í þeim tilgangi að þau myndu mæta seint í hárgreiðsluna hennar. Hlátur, sem þau og gerðu.
Um kvöldið tókum við að okkur veislustjórnina og sögðum brandara. Í sannleika sagt áttum við ekki von á þessum viðbrögðum. Fólk hló að öllu því sem við höfðum fram að færa og þótti við afar hnittin og skemmtileg. Að loknu kvöldi voru flestir gestir sem komu og kvöddu okkur sérstaklega, ýmist með hlýjum orðum eða hrósi fyrir skemmtilegt brúðkaup. Einn frændi minn sagðist hafa litið á klukkuna hálf sjö og litið á hana rétt fyrir ellefu, þegar barnapían hringdi og lét vita að hún átti nú raun bara að vera til tíu...
Kvöldinu lauk með því að við keyrðum brúðhjónin mjög óvænt upp á Hótel Sögu þar sem þeirra beið herbergi sem við Anna Vala höfðum skreytt fyrr um daginn með rósarblöðum, hjörtum, mat, snyrtivörum, hversdags fötum af þeim (en iðnarðarmennirnir þeirra í blokkinni voru svo yndislegir að hleypa okkur í íbúðina fyrr í vikunni), einnotamyndavél, smokkum, heilræðum ástamt öðrum þægindum og gríni.
Kvöldið var yndislegt. Ég væri alveg til í að upplifa daginn allan aftur. Ekki var verra að Friðrik Ómar og Guðrún Gunnars komu og sungu í brúðkaupinu, en við það tilefni var ég ekki snöggur að nota tækifærið og stela fyrsta dansi af brúðgumanum. Þegar tertan var svo loks skorin stal ég stund með svaramanni til þess að skera kökuna með honum og mata hvor annan. Frændi minn og svaramaðurinn hans eru báðir myndarmenn, alls ekkert ónýtt að taka prufukeyrslu með þeim á svona stemningu.
Væri alveg til í að gifta mig ef það verður svona partý.
Athugasemdir
Þetta hefur verið skemmtilegur dagur
Brynja Hjaltadóttir, 19.7.2007 kl. 19:40
Hljómar eins og skemmtilegt brúðkaup.
Pétur (IP-tala skráð) 21.7.2007 kl. 01:06
Þakka kærlega fyrir hlý orð og ánægjulegt að heyra að allir skyldu skemmta sér konunglega. Ég væri sko alveg til í að upplifa þetta aftur þetta var meiriháttar. Ástarþakkir enn og aftur fyrir að vera frábær
Andrea nýgifta (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 11:59
Brilliant! :D
Marta, 23.7.2007 kl. 19:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.