Þriðjudagur, 9. janúar 2007
Prestar
Eftir því sem ég eldist skildi ég síður tilgang presta. Ég skil tilgang þeirra áður fyrr en þetta er eitt af þeim stofnunum sem ekki hafa þróast með afgangi samfélagsins. Mér finnst þeir oft minna mann frekar á það liðna en nútímann og hvað þá framtíð mína. Kannski tók steininn úr þegar biskupinn fór að tjá sig um málefni sem snerta mig. Held að það hafi verið í framhaldi af því sem ég ákvað að rækta mína trú sjálfur án tengsla við þjóðkirkjuna.
En það var ekki sem ég ætlaði að segja ykkur frá, heldur prestinum sem ég kynntist úti í Póllandi. Já, það eru margar sögurnar sem ég skulda ykkur frá Póllandi. Presturinn átti herbergi við hliðina á mínu, en leiðir okkar lágu fyrst saman í andyrinu þar sem ég beið eftir afganginum af áhöfninni á aðfangadag til þess að fara saman og fá okkur hádegismat. Þessi gamli og viðkunnalegi maður kom inn, hárið var hvítt, ekki einu sinni ljóst heldur bara hvítt. Hann var í svörtum ullarfrakka sem náði honum niður fyrir hné, hann gekk örlítið hokinn. Hann leit örlítið út eins og mörgæs við fyrstu kynni, því hann gekk líka með hendur niður með síðum. Svo þegar hann kom nær sá ég sultardropann sem hafði myndast á stóra nefinu hans og hann hafði augu sem eitt sinn voru blá en voru nú með gráu yfirbragði. Ég brosti til hans því mér fannst hann skondinn. Hann tók strax eftir mér og lagði af stað í átt til mín. Andyrið er stórt og ég sat í sófa lengst til hliðar. Þegar hann kom nær heilsaði hann mér og lauk kveðjunni með því að þurrka dropann á nefinu á handarbakið á prjónuðu svörtu vettlingunum sínum. Ég svaraði ekki kveðjunni fyrr en ég var búinn að horfa á eftir handarbakinu fara aftur í sína stöðu, á síðuna.
Ég man í dag ekkert hvað hann heitir þessi blessaði maður, en það var gaman að kynnast honum. Við hittumst reglulega eftir þetta og spjölluðum svolítið saman, hann var greinilega svo einmana og hafði lítið fyrir stafni. Ég gladdi hann greinilega heilmikið með þessum stuttu samræðum sem ég átti við hann. Hann bjó í Bandaríkjunum en átti ættir sínar að rekja til Póllands, hingað var hann sendur í prestaskóla og hafði orðið mikill vinur Jóhannesar Páls páfa heitins. Þegar ég spurði hann hvernig honum liði að eyða jólunum á hótelherbergi sagði hann mér að það væri skrítið, en hann og Jóhannes Páll voru vanir að eyða öllum aðfangadegi saman og snæða saman um kvöldið. Sér þætti því aldrei hátíðlegra en að vera í Vatikaninu um hátíðarnar, ef ég man söguna hans rétt. En hann var þangað kominn til þess að eyða jólunum með örfáum pólskum prestum sem voru saman í prestaskólanum í Kraká.
Hann hlakkaði samt til og þótti það mikill heiður að vera boðinn af Kardinálunum til hátíðarkvöldverðar í Vatikaninu að kvöldi þriðja í jólum. Hann var samt eitthvað svo stefnulaus, einmana og leiður. Hann vildi ekki segja mér frá núverandi páfa, en talaði fallega um gamlan vin sinn sem greinilega hefur nærri verið hans nánasta fjölskylda. Mér þykir svolítið vænt um þennan skrítna prest sem var svo ljúfur, rólegur en það ruglaður að hann talaði í hringi og spurði sömu spurningarinnar mörgum sinnum.
Eftirá að hyggja hefði verið skemmtilegt að fá hjá honum heimilisfang og skrifa honum eitt bréf, en líklega er best að hitta þennan gamla mann aldrei aftur. Samkvæmt hans trú þá verður eitthvað aðeins heitara á þeim stað sem ég fer á eftir þessa tilvist heldur en hans.
Athugasemdir
hehehheh ábyggilega meira stuð þar sem er heitara:)
Kv. Sambýlinguinn....mamma 2
Anna Vala (IP-tala skráð) 9.1.2007 kl. 13:21
Gaman.
En vissi hann hver þú ert?
Sverrir Páll Erlendsson, 9.1.2007 kl. 21:23
Ha ha, auðvitað vissi hann það
Guðlaugur Kristmundsson, 14.1.2007 kl. 13:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.