Fimmtudagur, 28. desember 2006
Kraków
Ég var að koma frá því að tala við Héðinn í síma. Ég er staddur á hótelherberginu mínu í Krakow. Það var svo gaman að heyra í Héðni að ég stökk upp í rúm, nakinn og hoppaði í því þangað til einn fóturinn gaf sig. Og nei, það var enginn fótur á mér sem gaf sig. Í dag er síðasti dagurinn í Kraká og þið hafið nákvæmlega ekkert heyrt í mér. Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki komist í það að stinga niður penna hérna, þið verðið að afsaka það.
Í gærkvöldi fór ég á djammið. Mér þótti borgin ekkert draugaleg eða fátt fólk á ferli, fyrr en núna eftir að hátíðirnar voru búnar. Hérna í Kraká voru nefnilega jafn margir á götunum á jólunum og heima á venjulegri helgi. En eftir að hátíðinni lauk hefur hérna ekki verið þverfótað fyrir fólki. Núna er þetta víst orðinn eðlilegur fjöldi fólks á götum úti. Það er gaman að sjá borgina svona iðandi af lífi. Sætu strákarnir eru líka komnir út á göturnar, úr jólamatnum frá mömmu sinni. Í tilefni þess að ég fékk skyndilega trú á pólska kynbræður mína í ljósi þess að hafa séð þá framúrstefnulega fallega nokkra, ákvað ég að leita uppi kynvillta skemmtistaði. Ég hafði samband við belgískan vin minn sem býr nú í Osló en hefur búið hér í Kraká í nærri tvö ár. Hann sagði mér að drífa mig nú þegar á Kitsch, en þar væri aldrei nokkur maður svikinn um skemmtun og athygli. Ég er auðvitað ekki jafn kunnugur borginni og hann, var nærri búinn að gefast upp á að leita uppi þennan stað þegar hann spyr mig á hvaða götu hótelið mitt væri. Það var þá sem við áttuðum okkur á því að þessi besti kynvillti skemmtistaður Pólverja er hinum megin við götuna, fyrir ofan bankann. Hann er opinn daglega frá fimm að kvöldi til fimm að morgni, eða á þeim tímum sem ekki er verið að vinna í bankanum...
Ég var því ekki lengi að herma eftir Dóróteu í Oz, fara í mína bestu skó og slá hælunum saman. Framundan var ein athyglisverðasta nótt sem ég hef upplifað, ekki af því að ég skemmti mér svona vel eða fékk svona mikla athygli, heldur vegna þess að pólskir hommar haga sér öðruvísi. Hugtakið hommahækja hefur allt aðra merkingu hér og er ekki fylgihlutur, heldur staðalbúnaður. Ef að einhver hommi var búinn að daðra of mikið eða vera daðrað of mikið við, var viðkomandi hommi ekkert of lengi að leita að sinni hommahækju, sleikja á henni hálsinn og enda í hörkusleik við hana - með galopin augun að fylgjast með þér, á meðan þeir jöfnuðu sig á því að vera fylgja tilfinningum sínum og dansa við annan strák, eða strjúka honum.
Homminn og hækjan virtust alveg jafn lítið eða mikið fá út úr þessum sleikjum, en að loknum sleik þá var yfirleitt gengið í sitthvora áttina. Homminn á barinn og stelpan áfram að dansa við vinkonur sínar. Ég hélt á tímabili að þetta væri leikrit eða fólk á einhverju sterkara en vínanda. Kvöldinu lauk svo með því að ég var einn af eftirlegukindunum og gamla korter-í-þrjú stemningin var alsráðandi. Sá allra fyllsti hafði þá fengið í sig kjart til þess að ræða við mig, en mundi aldrei í lok setningar á hverju hún hafði byrjað. Sama hvort hann sagði hana eða ég.
Fyrir utan skemmtistaðinn upplifði ég hegðun drengja sem ég skildi ekki hvort væri feimni, óframfærni, daður eða "krús". Ég hafði bara áhyggjur á því að einhverjir myndu taka hegðun minni sem boð á hótelið hinum megin við götuna.
Athugasemdir
Hæ Gulli minn, ég saknaði þín mikið á þorláksmessu... stássstofan er ekki söm án þín!!!
Húsfreyjan Laugavegi 38 (IP-tala skráð) 28.12.2006 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.