Föstudagur, 23. mars 2007
Íslenskt mál
Ég er meyja, því fylgir að vera bæði smámunasamur á furðulega hluti og þurfa ákveðið skipulag á hlutina. Röng notkun á íslensku máli er eitthvað sem ég hef nýverið og ómeðvitað orðið smámunasamur með. Ég er því miður ekki fullkominn, en ég vil tala og skrifa rétt má, leiðréttið mig því sem vitrari eru í þessum efnum.
Fyrirbærið opnunartímar í verslunartímum finnst mér furðulegt fyrirbæri, mér sýnist við fyrstu athugun að um ensk áhrif sé að ræða. Það bara hlýtur að vera réttast að tala um opnutíma eða það sem enn betur færi; afgreiðslutímar. Samt hafa lang flestar verslanir ritað þetta orð, opnunartímar, í stein eða gler við inngang verslunar/afgreiðslustaðar. Ef opnunartími er á milli 10 og 18, hvenær lokið þið þá? Og hvers vegna tekur það ykkur 8 tíma að opna búðina, eða opnið þið bara einhvern tímann á þessu bili? Fylgir þessu ekkert lofoð um ákveðinn afgreiðslutíma eða opnutíma búðarinnar?
Það er ekki bara ensk áhrif sem gætir hjá okkur því danskan hefur náð ákveðnum ítökum í málinu líka. Það nefnilega skeður ekkert hjá okkur heldur gerist, ólíkt því sem margir vilja meina. Margir bæta danska orðinu síðan (d. siden)fyrir aftan tímasetta atburði dæmi; það gerðist fyrir sjö árum síðan. Sama setning hljómar best; það gerðist fyrir sjö árum. Síðan er hérna algjör dönsku upptaka. Kannski að Danir segji því; það skeði fyrir sjö árum síðum. En hjá okkur bara gerðist það fyrir sjö árum.
Ég man enn eftir vonbrigðissvipnum á íslenskukennaranum mínum Björgu frá Hvammi þegar ég skrifaði síðan í tímatengdum atburði í stíl hjá henni, tvisvar í röð.
Það er margt sem við þorum ekki. En að þora því, er bara hvorki hægt né rétt. Við hljótum öll að þora ÞAÐ ekki, því annað er klár þágufallssýki. Þegar ég var í grunnskóla var hún Björg sem kenndi mér að setja alltaf fallorðið hestur í stað orðsins sem við áttum í vandræðum með fallbeygjingu. Ég þori hest ekki, hljómar bara mun réttara en að þora hesti ekki.
Leiðréttið mig þið sem eruð vitrari í þessum efnum. Ég býð upp á gagnrýni, það þori ég.
Athugasemdir
Þetta er satt og rétt, en sameiginleg villa veitir réttinn. Lesist: Hæpið að kalla þetta rangt mál fyrst að allir nota það. Og það eru bókstaflega allir sem mæla svona. Ég sé þetta á hverjum degi, alls staðar!
Brynjólfur Ólason (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 15:04
Hæ hjartað mitt. Mér er nú slétt sama hvað þetta er kallað, svo lengi sem það er opið ;)
Til hamingju með Eplið og velkominn í Ávaxtakörfuna þar sem allir eru vinir. Hvenær á svo að mæta í vinnu? Ætluðum við ekki að fara eitthvað fallegt saman? Ég var sko ekkert að grínast með það og bíð spennt eftir að fara með þér í ofurferðina miklu. Skilaðu knúsi til Binna litla.
mússí múss, Harpa Hjartar.
Harpa Hjartar (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 16:10
Sæll. Það vill til að ég á að vita eitthvað um þetta.
Í fyrsta lagi er snarvitlaust að tala um opnunartíma. Opnun er athöfnin að opna. Eins og þú segir þá tekur það allan tímann frá klukkan 9-5 að draga dyrnar frá stöfum ef sagt er að opnunartími sé 9-5. Langeinfaldast er að segja: Opið frá 9 til 5. Það má alveg kalla það afgreiðslutíma, en óþarfi að hafa svo langt orð.
Auðvitað er sögnin ske dönsk. Hún hefur hins vegar verið notuð á Íslandi í a.m.k. 150 ár og þess vegna má segja að hún sé orðin íslenski, að minnsta kosti tökuorð eins og sjoppa og gardínur, svo við tökum bæði enskt og danskt orð til samanburðar. En ég er sammála um þetta síðan, það er nefnilega svo mikill óþarfi.
Þegar komið er að því að þora erum við ekki sammála. Þar er ekki hægt að segja að annað sé rétt og hitt vitlaust af því að þarna er landshlutamunur. Ég ólst upp við að þora því þó að ég hafi verið svo mikil skræfa að ég þorði næstum ekki neinu. Ég varð kjaftstopp þegar ég frétti það í MA að maður ætti að segja þorði það. Mér fannst það álíka mikil útlenska og að segja leikfimihús og athygliverður. Það er algengara á Norðurlandi að þora því en að þora það.
En getur þú sagt mér hvað það þýðir á íslensku að plögga?
Sverrir Páll Erlendsson, 5.4.2007 kl. 15:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.