Þriðjudagur, 13. mars 2007
Osló
Ég hef alltaf verið svolítið skotinn í Osló. Suma daga er eins og ég hafi verið síðustu nótt í Osló, aðra daga er eins og ég hafi aldrei verið þar. Núna síðast eyddi ég nóttinni þar ásamt Ásgeiri og Gunna eftir ráðstefnu í Björgvin (n. Bergen). Við gistum heima hjá hr. Angell og hr. Lopez sem búa í mjög fallegri og rýmgóðri íbúð, rétt hjá Grænlandsstöðinni.
Við komum til þeirra á sunnudegi eftir ráðstefnuna í Björgvin og fórum strax að borða á stað sem heitir Et glas. Æðislega skemmtilegur hommastaður, sem selur góðan mat, háværa tónlist og er með fallega kokka. Allir hommar vita að það er mjög mikilvægt að kokkar séu fallegir, enda hljóta þeir hreinlega að búa til góðan mat. Að öllu ólöstuðu, verð ég að taka fram að þjónustan var í lagi, ég sem vinn svo mikið í þjónustustörfum.
Eftir matinn og útsýnið var tekið til við að spila fimm manna Kana. Við ásamt norskum heildsölusala hárgreiðslusala, sænskum dansara og lögfræðingi hjá norska skattinum. Eftir mat og spil var farið á stað sem mig minnir að heitir New York en þar vorum við ekki lengi að æsa mannskapinn og draga allan staðinn út á dansgólfið. Plötusnúður staðarins var einn sá furðulegasti sem ég hef séð lengi. Þegar maður horfði á hann af vinstri hlið var hann mjög ófríður en þegar nálgast var hann að hægri hlið leit hann út fyrir að vera einn sá myndarlegasti á staðnum.
Þegar allir höfðu dansað nægju sína var gengið niður á Karl Jóhann og komið við í sjoppu þar sem fæst bæði Draumur, Djúpur, Rís, Hitt og Þetta ásamt einhverju fleira íslensku sælgæti sem ég ekki man í augnablikinu. Afgreiðslumaðurinn tjáði okkur að þetta íslenska nammi væri þónokkuð vinsælt, en ekki þótti honum verra þegar við bentum honum á að það væri mjög gott að kaupa sér poka af Djúpum, setja hann í skál, þaðan í örbylgjuna og borða svo herlegheitin með skeið yfir sjónvarpinu. Svipur á andliti mannsins sýndi annaðhvort aðdáun eða hrylling. Ég næ ekki að átta mig á því.
Um nóttina tók ég mig til við að máta meðal annars englavængi og matreiðslusvuntur. Þó ekki á sama tíma. Myndasafnið við það tækifæri verður ekki birt hér á blogginu.
Morguninn eftir þurftum við að vera snarir í snúningum, því að flugið var fljótlega eftir hádegi og við náðum að sofa fram til klukkan tíu. Samt náðum við að borða morgunmat, draga töskurnar okkar niður í bæ, versla í H&M, ganga um miðbæinn, stopp á besta kaffihúsi í veröldinni (sjá mynd) og daðra við sæta sæta sæta norðmanninn sem var að vinna þar. Held ég þurfi að fara sem aftur allra fyrst og drekka anna kaffibolla þar, þá í betra tómi.
Annars er það að frétta að félagsfundur í Flugfreyjufélagi Íslands var í gær og ég mætti með heimabakaðar amerískar muffins. Fannst það við hæfi.
Athugasemdir
þú ert orðinn ýkt vinsæll....mynd af þér á forsíðu mbl.is undir blogginu en bara heitustu bloggin fá slíkt.......bara flottur gaur !!!
Kv.
Aðdáandi
Gunnar Jonsson (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 21:57
Hvernig leit maðurinn út séð að framan?
Jón Eggert (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 03:06
Frægur gaur..... ég þekk´jann
Anna Sigga, 19.3.2007 kl. 22:29
hva... mig langar að vera svona vinnumaður næst þegar þú ert með setrið ;) pant ég pant ég ....
koss og knús
-hlé (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 12:57
innlitskvitt
Ólafur fannberg, 20.3.2007 kl. 14:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.