Lómar við Þjórsá

Lómar við ÞjórsáÁ sunnudaginn var ég á mótmælafundi gagnvart frekari virkjunum í Þjórsá í Árnesi. Málið tengist mér mjög mikið enda á fyrirhugað Hagalón ekki bara að taka af okkur stóran hluta af ræktuðu landi heima á bænum mínum heldur á það líka að taka ættareyjuna okkar, Hagaey, að mestu undir lónið. Það var svo gaman á þessum fundi, margir tóku til máls og flest voru erindin skemmtileg. Finnbogi frá Minni Mástungu sagði það svo réttilega í sínu erindi, að það væri gaman að sjá hvað margir mættu á fundinn, en skemmtilegast hefði þó verið að þurfa ekki að halda hann.

Margir sem mættu á fundinn eru bloggvinir mínir hér hjá Mogganum, Siggi frændi, Haukur tjaldur en vænst þótti mér að sjá hana Guðfríði Lilju sem einnig flutti kveðju úr þéttbýlinu á fundinum. Ég mætti sjálfur ásamt því að vera fylgdarmaður langömmu minnar, Jóhönnu Jóhannsdóttur, sem verður 93 ára á þessu ári. Hún er elsti íbúi sveitarinnar og hefur búið þar alla sína ævi. Hún skrifaði hugleiðingar sem lesnar voru upp á fundinum og fór vel í fólk.

Meðfylgjandi mynd heitir Sumarnótt, lómar við Þjórsá og er máluð af Jóni Stefánssyni, fæddum 1881 á Sauðárkróki. Myndin er ein sú stærsta sem að Listasafn Íslands á og er í fastasýningu þess í öndvegi salarins. Þið þekkið hana örugglega mörg, en hún er til í eftirprentun hjá mörgum heimilum. Ein eftirprentunin er komin út til Kaupmannahafnar og mun þar prýða væntanlegt heimili Héðins.

Myndefni málverksins er það sem fyrir augu ber út um stofugluggan heima í sveitinni minni. Þetta var einmitt það sem við stórfjölskyldan hafði fyrir augum í hádeginu fyrir fundinn, það sem að verður fórnað með fyrirhuguðu lóni. Til þess að stappa stemningu í ættingja, bauð mamma til hrossakjötsáts fyrir fundinn. Ég vil að Morgunblaðið taki það upp hjá sér að birta myndir af því fólki, á forsíðu, sem er að berjast fyrir því að ræktarlöndin okkar, bóndabýli, sumarbústaðalönd, landshlunnindi og útivistarsvæði verði fórnað til umhverfisspillandi iðnaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigga

 Þessi lesning yljar manni.... það væri mikll hagnaður í að hafa þig í hópi þeirra sem verjast gegn virkjunum,  allavega í neðri Þjórsá. Þú ert svo góður leiðtogi....

  Myndin er einstaklega falleg en þó ekki eins falleg og stórbrotin og hin eina og sanna náttúra í þessari fallegu sveit okkar. 

Anna Sigga, 13.2.2007 kl. 12:22

2 identicon

Amma sagði að þú hefðir verið svo indæll og skemmtilegur. Hefði verið þarna líka en gat ekki vegna óviðráðanlegra orsaka.  Svo stendur í fréttablaðinu í dag að meirihluti fundarmanna hefði verið utansveitarmenn og oddvitinn okkar blessaður kallinn sagði að það væru nú bara örugglega margir heimamenn jákvæðir fyrir þessu!!  fuss og svei  við verðum bara að halda áfram að spyrna við fótum og berjast fyrir landinu okkar. Ég er ekki alveg tilbúin til að sýna börnum og barnabörnum "hér var einusinni rosa fallegt"    

 Sammála Önnu Siggu, það jafnast ekkert á við hið eina sanna, um að gera að standa vörð um það!

Álfheiður (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 17:37

3 Smámynd: Guðlaugur Kristmundsson

Ég er ekki vanur að tala illa um fólk, en ég er farinn að efast um heilbrigða skynsemi, ekki bara hjá hreppsnefndinni heldur öllum meðlimum hennar.

Guðlaugur Kristmundsson, 13.2.2007 kl. 18:29

4 identicon

Minnihlutinn getur voða lítið sagt.  Ég er ekki viss um að Jón Vilmundarson vilji fá túnin sín í kaf. Amma, sem sjaldan skiptir skapi, verður alltaf reið þegar hún heyrir í Valgerði Sverrisdóttur. Eiginlega eina skiptið sem ég hef heyrt hana bölva hressilega var þegar Valgerður var iðnaðarráðherra og var að tala um virkjanaframkvæmdir.  Mér fannst það fyndið   Svo var hún mjög ósátt eftir síðustu sveitastjórnakosningar og lét ekki liggja á skoðunum sínum um oddvitann, bara ekki eins svívirðilega , og að nú væri allt sem unnið hefur verið að í náttúruvernd farið forgörðum.  

Mér liggur við að blóta eins og hún þegar ég hugsa um allt fólkið sem veit ekki betur en ég geri það ekki hér Gulli minn svo þú blokkerir mig ekki út af síðunni þinni .  Segi bara eins og Jón Oddur og Jón Bjarni " það hefur gleymst að fræða þau betur". 

Álfheiður (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 19:55

5 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Þetta er snilldarvel gerð hugleiðing hjá þér, Gulli. Einhver best heppnaða grein sem ég hef séð eftir þig. Og áhrifaríkt, að ef þeir sökkva sveitinni verður ekkert eftir annað en málverk. Og þrátt fyrir að það sé til endurprentað á hundruðum heimila, heima og erlendis, kemur það aldrei í stað fyrirmyndarinnar. Þá verður ekki hægt að koma heim til þín og upplifa það í raunveruleikanum sem hangir á vegg heima.

Sverrir Páll Erlendsson, 14.2.2007 kl. 08:13

6 Smámynd: Guðlaugur Kristmundsson

Takk Sverrir fyrri hlý orð. Ert þú með útsýnið úr borðstofunni heima í íbúðinni þinni?

Guðlaugur Kristmundsson, 14.2.2007 kl. 13:15

7 Smámynd: Anna Sigga

 Ég er ekki sátt við oddvitann okkar... enda kaus ég hann ekki!

Anna Sigga, 14.2.2007 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband