Þorrahelgi

thorramaturÉg er svo hamingjusamur með helgina mína. Mér finnst hún hafa heppnast svo vel og farið fram úr öllum væntingum. Föstudagurinn var að vísu hausverkjamorgun sem fór fljótt með því að fara í klippingu, herðanudd og kynæsingarúðunarendurnýjun. Rétt fyrir kaffi er svo nýja klippingin sýnd í Laugum með miklum eftirtektum hjá viðstöddum. Þá næst er rokið til við að keyra aftan á mig því afturendinn á bæði mér og bílnum eru orðnir svo ómóstæðilegir. Þegar stuttri skýrslutöku er lokið er stefnumótið mitt sótt og keyrt heim í sveitina til þess að mæta með mér til Þorrablóts. Það hafði verið kynnt svo rækilega á tölvupóstsendingum meðal ættmenna að ég myndi mæta ekki maður einsamall á þetta blót, að enginn lét sig vanta. Enginn hafði hugmynd um að leynigesturinn myndi reynast aldagömul vinkona mömmu sem er með þeim hressari í bransanum, þannig að ekki reyndist fólk vonsvikið þó það hefði búist við öðru kyni.

Á þorrablóti Gnúpverja var framreiddur einstaklega góður þorramatur í þetta skiptið. Svo góður að ég þurfti að fara þrjár súrmatsferðir áður en ég fékk mér svolítið af hangikjöti og smjöri með smá flatköku undir. Ég lagði ekki í hákarlinn enda hafði ég farið í hákarlsátukeppni við mömmu mína heima áður en við lögðum af stað til blóts. Mamma vann léttilega, enda drakk hún púrt og brennivín með, en ég mjólk.

Eftir að mat og skemmtiatriðum lýkur er nauðsynlegt að fara dansa. Hringdans er snilldarlega vel heppnuð leið til þess að hrista fólk fram á gólf í fyrsta dansi, allir sækja þangað í tilgang og enginn þarf að líta flótalegur í kringum sig að nokkur skuli glápa. En ég leyfði mér að sleppa við hringdansinn allt kvöldið í þetta skiptið, maginn var of fullur af hrútspungum. Í þriðja eða fjórða dansi sátum við nokkur ættmennin ásamt vinkonu mömmu og horfðum á konu sem var greinilega að dansa við óðan mann, sem við sáum að vísu ekki. Konan er nokkuð hávaxin og slánalega vaxin, en klædd í himinbláa peysu sem flaksaðist vel þegar henni var hent til og frá. Það var greinilega vel haldið í aðra hendina á henni en með hinni hendinni fálmaði hún út í loftið með skelfingarsvip og var tilbúin með lausu hendina ef hann myndi missa stjórn á henni eða hún rekast utan í fólk, stóla eða borð.

Pabbi minn er lágvaxnari en þessi kona, það sáum við þegar hann gekk út úr þvögunni og dansinn var búinn, fólk hafði stillst og beið eftir næsta lagi. Það var nefnilega þá sem við áttuðum okkur á því að það var pabbi minn sem hafði verið duglegastur á dansgólfinu það skiptið. Glottið á pabba mínum var þvílíkt þegar hann leit í kringum sig leitandi, að næsta fórnalambi. Glottið breyttist í bros þegar hann gekk að vinkonu mömmu, sem ég hafði dregið með mér á þorrablótið og átti alls ekki von á þesskonar dansi þegar hún þáði boðið mitt á saklaust sveitarþorrablót.

Daginn eftir fékk ég svo boð um að koma ásamt nokkrum vinum upp í bústað með útsýni yfir Hreðarvatn. Ég held við höfum eytt nærri sólarhring í bústaðnum, þar af fóru um það bil 12 tímar í heitan pott, að er virðist. Einnig náðum við að grilla einn besta mat sem ég hef tekið þátt í að búa til en í framhaldi af því að spila teikni, leik og leiraspilið. Það er kannski ekkert mál að leika Ólaf Ragnar Grímsson, en þegar maður þarf að leira hann flækist málið...

Sunnudagurinn endaði svo í stuttri heimsókn í Laugar en í beinu framhaldi af því fórum við sambýlingarnir á rómantískan kvöldverð á Silfur, fyrrum Hótel Borg og göngutúr um miðbæinn. Ég er svo glaður með helgina að ég auglýsi eftir því hreinlega að fólk í kringum mig leitist við að eyða öllum helgum með mér á svipaðan hátt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigga

God your funny..... mjög fúlt að hafa misst af þessu bjútífúl þorrablóti. Miss you

Anna Sigga, 23.1.2007 kl. 20:09

2 Smámynd: Anna Sigga

myndin þín er eitthvað mis, við viljum sjá þig sæti

Anna Sigga, 24.1.2007 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband