Sunnudagur, 14. janúar 2007
Tvíburarnir eru að fara
Ég mætti ekkert í Laugar undanfarna tíu daga en fór svo í fyrsta skipti í gær. Þetta var ekki út af því að ég nennti ekki að mæta eða að ég væri sár yfir því að gleraugunum, tveimur pörum af linsum, augnkrem, dagkrem, rakakrem, sturtusápa, þvottapoki, tannbursti og tannkremi var stolið af mér í búningsklefa WorldClass. Nei það er nefnilega ekki ástæðan. Heldur voru tvíburnarnir búnir að vera hjá mér, nokkurskonar pabbahelgi, eins og þið sjáið á meðfylgjandi mynd. Farði, krem og púður voru vopn mín til þess að fela sem mest af þessum roða, útbrotum og viðbjóði. Neðri vörin var tvöföld sú stærð sem hún venjulega er. En núna er þetta allt að lagast, pabbahelginni er að ljúka og ég fer að komast almennilega frá.
Atvinnuleysi flugfreyjunnar er samt orðið ansi leiðigjarnt, óvíst hversu lengi það muni standa. Hápunkturinn var án efa þegar sumarfreyjur hittust síðasta föstudagskvöld til þess að gera sér glaðan dag. Ég kom heim löðursveittur eftir danssveiflur og trúnaðarsamtöl, þrjá skemmtistaði á sex klukkutímum. Hef svo síðan þá verið hundþreyttur og eiginlega bara eftir mig. Næst fæ ég mér í glas, til þess að sjá hvort ég verði betri dagana á eftir.
Annars hefur mig dreymt mikið að ég sé farinn að vinna aftur. Ég er sem dæmi að fara á Þorrablót í sveitinni minni næstu helgi. Það er yfirleitt mjög gaman á Þorrablótinu en í draumnum mínum sem ég átti um daginn var Þorrablótið byrjað þegar ég skyndilega fer í það að undirbúa fólk fyrir flugtak. Svo virðist vera að Félagsheimilið með 900 manns innanborðs ætlaði að taka á loft. Þegar ég var búinn að fá alla til þess að halda fast í diskinn sinn, setjast ofan á hnífapörin og setja glösin sín og flöskurnar undir stólinn hjá mótsessunaut sínum, fór ég inn á klósett, settist þar niður, skorðaði mig af, tók upp farsímann og hringdi í flugstjórann, sagði honum að Þorrablótið væri tilbúið.
Sem betur fer vaknaði ég þegar ég áttaði mig á því að ég þurfti að pissa. Sem betur fer áttaði ég mig á því að ég væri ekki staddur á klósettinu í félagsheimilinu heldur uppi í rúmi, svo ég fór framúr.
Athugasemdir
Það væri nú aldeilis upplifun að vera á þessu þorrablóti sem þig dreymdi um Sjáumst á föstudaginn
Kveðja, Áslaug frá Laxárdal
Áslaug (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 16:37
Já sammála Áslaugu, það verður smá tilbreyting að takast á flug! Hlakka til að sjá þig á föstudaginn.
knús, Álfheiður
Álfheiður (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.