Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 31. mars 2007
Bara vegna kaldhæðninnar
Brian Kinney
Take this quiz!
Quizilla | Join | Make A Quiz | More Quizzes | Grab Code
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. mars 2007
Veður
Sunnudagar eru í uppáhaldi hjá mér, það er eitthvað svo þægilegt að vakna þessa daga. Skipulagning vikunnar, klára verkefni, fá sér kaffi, taka eina góða æfingu í ræktinni, símtöl og fjölskylda, vinir og hangs. Eftir æfingu í morgun var ég mættu á b5 um leið og opnaði, fékk mér kaffi og hef verið að lesa síðan þá. Hef spjallað við vini mína í Svíþjóð, Finnlandi, Spáni og Hollandi. Það er æðislegt veður alls staðar, fólk er ýmist úti að klippa rósirnar sínar, liggur á teppi í almenningsgarði eða um það bil að fara halda upp á óvænt afmæli vina sinna. Ég er í Bankastrætinu, það er rigning og grátt yfir að líta. Helmingur fólks sem gengur göturnar eru ferðamenn, hinn helmingurinn eru skiptinemar.
Hingað hafa margir mætt, allir fá sér eitt glas áður en haldið er lengra. Ég er búinn að vera jafn lengi og stelpan sem mætti í fyrsta skipti í vinnuna í morgun. Við erum orðin málkunnug, enda var ég hér einn með henni í tvo tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 24. mars 2007
Pollýanna
Ég varð vonsvikinn með lífið í gær, samt leið mér ekki illa. Það er mjög sjaldan sem ég geri mér væntingar um fólk eða geri mér væntingar um það hvernig aðrir koma fram við mig. Þannig verð ég aldrei vonsvikinn. Samt lá ég í rúminu mínu í gærkvöldi, horfði á hvítmálað loftið í rökkrinu og áttaði mig á því að þessi tilfinning væri vonbrigði með lífið. Samt voru þar engar væntingar sem voru brostnar. Ég þarf því að gera eitt af tvennu, fara að gera mér oftar væntingar og takast á við timburmenn þeirra væntinga eða hreinlega að sættast við lífið og lifa með lífinu. Ég er samt ekki blúsaður eða leiður, langt frá því. Pollýanna er aldrei leið.
Gærdagurinn var svo þægur og stilltur, innihaldsríkur og gefandi. Við hjónin þrifum íbúðina eins og oft vill verða fyrir helgi, rétt aðeins og svo var farið til frumsýningar á nýjum jeppa hjá Ingvari Helgasyni, Sushilestina í Lækjargötu og svo komið heim. Símtöl fram eftir kvöldi, heimildarvinna fyrir ritgerð og svo upp í rúm fljótlega eftir miðnætti. Í morgun teygði ég mig í bók þegar augun opnuðust og las uppí áður en ég fór fram úr. Fljótlega fór ég að hræra í eitt brauð og á meðan það bakaðist tók ég fram yfirstrikunarpenna og las skemmtilega skýrslu um tilgátu þess efnis að kosningahegðun kvenna breyttist samfara breytingum á þjóðfélaginu. Þetta er ótrúlega skemmtileg skýrsla eftir Inglehart, mæli með henni. Þegar sambýliskonan vaknaði svo beið hennar ekki bara ilmur nýbakaðs brauðs heldur líka skýrsla sem að fjallar um launamun kynjana á vinnumarkaði og hvernig breytingar hafa verið hér á Íslandi í þeim efnum. Já, konur og brauð í morgunmat í Kópavoginum.
Varð hugsað til íslenskra slökkviliðs og sjúkraflutningamanna sem er í Ástralíu að keppa á heimsmeistaramóti með starfsfélögum sínum. Þeir sem hafa áhuga á leikunum geta skoðað heimasíðuna: http://www.2007wpfg.com.au
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 23. mars 2007
Íslenskt mál
Ég er meyja, því fylgir að vera bæði smámunasamur á furðulega hluti og þurfa ákveðið skipulag á hlutina. Röng notkun á íslensku máli er eitthvað sem ég hef nýverið og ómeðvitað orðið smámunasamur með. Ég er því miður ekki fullkominn, en ég vil tala og skrifa rétt má, leiðréttið mig því sem vitrari eru í þessum efnum.
Fyrirbærið opnunartímar í verslunartímum finnst mér furðulegt fyrirbæri, mér sýnist við fyrstu athugun að um ensk áhrif sé að ræða. Það bara hlýtur að vera réttast að tala um opnutíma eða það sem enn betur færi; afgreiðslutímar. Samt hafa lang flestar verslanir ritað þetta orð, opnunartímar, í stein eða gler við inngang verslunar/afgreiðslustaðar. Ef opnunartími er á milli 10 og 18, hvenær lokið þið þá? Og hvers vegna tekur það ykkur 8 tíma að opna búðina, eða opnið þið bara einhvern tímann á þessu bili? Fylgir þessu ekkert lofoð um ákveðinn afgreiðslutíma eða opnutíma búðarinnar?
Það er ekki bara ensk áhrif sem gætir hjá okkur því danskan hefur náð ákveðnum ítökum í málinu líka. Það nefnilega skeður ekkert hjá okkur heldur gerist, ólíkt því sem margir vilja meina. Margir bæta danska orðinu síðan (d. siden)fyrir aftan tímasetta atburði dæmi; það gerðist fyrir sjö árum síðan. Sama setning hljómar best; það gerðist fyrir sjö árum. Síðan er hérna algjör dönsku upptaka. Kannski að Danir segji því; það skeði fyrir sjö árum síðum. En hjá okkur bara gerðist það fyrir sjö árum.
Ég man enn eftir vonbrigðissvipnum á íslenskukennaranum mínum Björgu frá Hvammi þegar ég skrifaði síðan í tímatengdum atburði í stíl hjá henni, tvisvar í röð.
Það er margt sem við þorum ekki. En að þora því, er bara hvorki hægt né rétt. Við hljótum öll að þora ÞAÐ ekki, því annað er klár þágufallssýki. Þegar ég var í grunnskóla var hún Björg sem kenndi mér að setja alltaf fallorðið hestur í stað orðsins sem við áttum í vandræðum með fallbeygjingu. Ég þori hest ekki, hljómar bara mun réttara en að þora hesti ekki.
Leiðréttið mig þið sem eruð vitrari í þessum efnum. Ég býð upp á gagnrýni, það þori ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Viðskiptavinir takið eftir!
Ég hef verið að berjast við sjö ára gamla fartölvuna mína sem er á síðustu metrunum. Ég keypti mér loks nýja tölvu í dag og hún reyndist verða Epli. Ég er svakalega ánægður með hana, sérstaklega í ljósi þess að núna eru liðnir tveir tímar frá því ég fékk hana í hendur en hún er nú þegar farin að spjalla við mig, taka af mér myndir við skemmtileg tækifæri og hefur náð að bjarga ritgerð sem var í heljargreipum í þeirri gömlu. Önnur ritgerð verður líklega komin á framfæri þessarar nýju silfraðar tölvu um helgina. Það er gott að eiga Epli, klárlega.
Þessi vika hefur verið furðuleg. Á mánudaginn kom eftirfarandi tilkynning í hátalarakerfi Lauga: "Viðskiptavinir takið eftir: Guðlaugur Kristmundsson er vinsamlegast beðinn um að gefa sig fram í afgreiðslu". Í gær mætti pósturinn með ábyrgðarbréf sem að sögn bréfberans væri kaupsamningur sem ég einn mætti taka á móti. Þar sem ég var ekki heima til þess að taka á móti bréfinu og ég þóttist ekki heyra tilkynninguna í Laugum, velti ég því helst fyrir mér hvort að ég eigi mér leyndan aðdáanda sem vill ná athygli minni og núna síðast með því að kaupa með mér draumaíbúðina.
Kaldhæðni vikunnar er að ég fór í klippingu í gær, þó það væru ekki nema tvær vikur síðan ég og Britney Spears fengum okkur sömu hárgreiðslu. Ég þurfti því ekkert að greiða fyrir klippinguna, en ég hitti gott fólk og fékk nammi frá klippara sem var nýkominn, syngjandi frá London.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Í Þorskafirði
Ég var í gargandi stemningu síðasta sumar í Þorskafirði, þar sem meðfylgjandi mynd er tekin. Núna þegar það fer að vora og í framhaldrinu fer sumarið að koma, fer ég að hugsa til þess að það verður að fara skipuleggja næstu útilegu. Þessi umtalaða útilega var æðisleg. Við vorum átta hommar sem tókum okkur saman í tvo bíla og keyrðum bara út úr bænum. Við vissum ekkert hvert við ætluðum en enduðum í Þorskafirði á Vestfjörðum. Það var eini staðurinn þá helgina sem ekkert rigndi.
Ég og Ásgeir sáum að sjálfsögðu um innkaup og almenna skipulagningu. Ég var yfir matarbirgðum og eldun en Ásgeir var yfir fjármálum og kostnaði. Á meðan ég grillaði 12 stórar sneiðar af grísasneiðum þá gekk freyðivinsflaskan á milli manna sem drukkin var á stút. Kjötsneiðarnar voru svo stórar að við urðum að borða í hollum. Með kjötinu voru 3 tegundir af sósum, ferskt salat, majonesusalat, grillkartöflur, kartöflusalat og eitthvað fleira. Á eftir vorum við með sykurpúða, kókosbollur, kaffi, kakó, vískí og Stroh.
Á þessari tveggja daga ferð okkar náðum við að fara í tvær sundlaugar og stoppa í æðislega krúttlegum söluskálum með góðu útýni. Við sátum í heitum potti og spjölluðum við aðra ferðamenn og hittum mæður vina okkar. Þetta var fullkomið. Ég auglýsi hér með eftir skipulagsnefnd í næstu útilegu.
E.s. fyrir þá sem hafa átt erfitt með að skrifa álit og athugasemdir á blogskrifin mín geta hæglega gert það héðan af. Ég hlakka til þess að sjá ykkur öll kvitta fyrir komuni á síðuna, en það hvetur mig enn frekar til skrifta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Osló
Ég hef alltaf verið svolítið skotinn í Osló. Suma daga er eins og ég hafi verið síðustu nótt í Osló, aðra daga er eins og ég hafi aldrei verið þar. Núna síðast eyddi ég nóttinni þar ásamt Ásgeiri og Gunna eftir ráðstefnu í Björgvin (n. Bergen). Við gistum heima hjá hr. Angell og hr. Lopez sem búa í mjög fallegri og rýmgóðri íbúð, rétt hjá Grænlandsstöðinni.
Við komum til þeirra á sunnudegi eftir ráðstefnuna í Björgvin og fórum strax að borða á stað sem heitir Et glas. Æðislega skemmtilegur hommastaður, sem selur góðan mat, háværa tónlist og er með fallega kokka. Allir hommar vita að það er mjög mikilvægt að kokkar séu fallegir, enda hljóta þeir hreinlega að búa til góðan mat. Að öllu ólöstuðu, verð ég að taka fram að þjónustan var í lagi, ég sem vinn svo mikið í þjónustustörfum.
Eftir matinn og útsýnið var tekið til við að spila fimm manna Kana. Við ásamt norskum heildsölusala hárgreiðslusala, sænskum dansara og lögfræðingi hjá norska skattinum. Eftir mat og spil var farið á stað sem mig minnir að heitir New York en þar vorum við ekki lengi að æsa mannskapinn og draga allan staðinn út á dansgólfið. Plötusnúður staðarins var einn sá furðulegasti sem ég hef séð lengi. Þegar maður horfði á hann af vinstri hlið var hann mjög ófríður en þegar nálgast var hann að hægri hlið leit hann út fyrir að vera einn sá myndarlegasti á staðnum.
Þegar allir höfðu dansað nægju sína var gengið niður á Karl Jóhann og komið við í sjoppu þar sem fæst bæði Draumur, Djúpur, Rís, Hitt og Þetta ásamt einhverju fleira íslensku sælgæti sem ég ekki man í augnablikinu. Afgreiðslumaðurinn tjáði okkur að þetta íslenska nammi væri þónokkuð vinsælt, en ekki þótti honum verra þegar við bentum honum á að það væri mjög gott að kaupa sér poka af Djúpum, setja hann í skál, þaðan í örbylgjuna og borða svo herlegheitin með skeið yfir sjónvarpinu. Svipur á andliti mannsins sýndi annaðhvort aðdáun eða hrylling. Ég næ ekki að átta mig á því.
Um nóttina tók ég mig til við að máta meðal annars englavængi og matreiðslusvuntur. Þó ekki á sama tíma. Myndasafnið við það tækifæri verður ekki birt hér á blogginu.
Morguninn eftir þurftum við að vera snarir í snúningum, því að flugið var fljótlega eftir hádegi og við náðum að sofa fram til klukkan tíu. Samt náðum við að borða morgunmat, draga töskurnar okkar niður í bæ, versla í H&M, ganga um miðbæinn, stopp á besta kaffihúsi í veröldinni (sjá mynd) og daðra við sæta sæta sæta norðmanninn sem var að vinna þar. Held ég þurfi að fara sem aftur allra fyrst og drekka anna kaffibolla þar, þá í betra tómi.
Annars er það að frétta að félagsfundur í Flugfreyjufélagi Íslands var í gær og ég mætti með heimabakaðar amerískar muffins. Fannst það við hæfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Staða vinnumanns er laus til umsóknar
Frá og með föstudeginum mun ég gerast bóndi á býli foreldra minna í Þjórsárdal. Litlu systkinin mín sjá núna að mestu um daglegan rekstur á býlinu. Ég hlakka til að komast í sveitina. Ég ætla að fara um leið og ég hef klárað fyrirlestra í Háskólanum þessa vikuna.
Ég er því að auglýsa eftir kynvilltum og myndarlegum vinnumanni til þess að aðstoða við búskapinn. Þjálfun fer fram á staðnum og laun eru greidd með fæði og húsnæði, eins og forðum. Hægt er að sækja um í álitskerfinu hér fyrir neðan.
Úr Kópavogsborg er það að frétta að undirritaður er fárlasinn heima hjá sér að reyna losna við hita. Það er eins og ég sé orðinn 12 ára, finnst allt vont og hef ekki lyst á neinu, ekki einu sinni sælgæti. Í gærkvöldi kom nágranninn okkar, lögreglan á efri hæðinni, í heimsókn. Við buðum honum upp á bjór og KitKat. En fljótlega eftir að hann kom fórum við að æfa Cha Cha Cha sporin eins og þau eru kennd á Dirty Dancing disknum. Hliðar saman hliðar undir ljúfum fallegum tónum þegar klukkan er að verða tvö að nóttu.
Nóttinni var svo lokið með Gyðu Sól og Fóstbræðrum, held að átökin eftir hláturinn hafi gert útslagið og aukið hitastigið. Má ómögulega vera að því að blogga meira, búinn að stelast í sturtu og skola af mér svitann, taka aðeins til en ætla að sofna núna yfir Heilsubælinu þó það sé miður dagur. Maður má allt þegar maður er með hita. Ekki allir sammála?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 26. febrúar 2007
Daður
Þið sáuð rétt sem voruð heima á föstudagskvöldið og horfðuð á beina útsendingu úr Vetrargarðinum. Þar var ég að styðja Jógvan í forláta bol með rauðum ermum og áletrunni: Færeyski folinn. Það var svakalega gaman hjá mér þetta kvöld og ég naut hverrar einustu mínutu. Ég hafði aldrei horft á þáttinn áður og vissi því nákvæmlega ekkert út á hvað þetta gekk. Skemmtunin var þvílík að ég er alvarlega að velta því fyrir mér að fara aftur, kannski ætti ég að vinna við sjónvarp, fannst umgjörðin svo skemmtileg. Kynnirinn var skemmtilegur, lang skemmtilegastur í hléi, þegar það voru auglýsingar sýndar heima í stofu.
Annars var ég að vinna um helgina á árshátíð hjá frekra stóru og verðmætu fyrirtæki. Það var svakalega gaman hjá mér, líklega heldur skemmtilegra hjá mér en almennum veislugesti. Lítið vissi ég að kvöldið átti eftir að verða betra. Þegar ég er að dunda mér við að gera eitt borðanna smekklegt og hirða af því tóm glós og annan búnað, snýr einn gæinn sér að mér og spyr mig hvar hann finni klósettið. Þar sem það var nokkuð hávært, beygði ég mig örlítið niður til þess að geta leiðbeint honum hvernig hann bæri sig að og benti honum leiðina. Þegar leiðbeiningum mínum er lokið snýr hann sér að mér og spyr hvort að það sé nokkur von á því að ég eigi leið þangað eitthvað á næstunni.
Mér þótti svo vænt um þetta daður, en þar sem gæinn var hvorki í markaðshóp, né hugsanlegum varamannabekk, þá tjáði ég honum að við starfsfólkið hefðum okkar eigið prívat hér á bak við, þar sem við fengum að bjóða sjálf á klósettið. En sjálfsáltið mitt reis upp um þrjár hæðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Björgvin
Það rignir í Björgvin, alla morgna og öll kvöld. Það er helst á daginn sem það stytti upp þar um síðustu helgi. Ráðstefnuhaldarar sögðu mér að ástæða rigningarinnar ætti ekkert skylt með því að þar hittust á þriðja tug Norræns fólk sem ekki er gagnkynhneigt (heteronormatívt). Maður er alltaf öruggastur á því að vera ekkert að telja upp neinar skilgreiningar því lesbía vill kannski ekki láta skilgreina sig sem slíka og tvíkynhneigð fangar kannski ekki alveg það sem skilgreinir eina persónu. Þegar allt er á botninn hvolft þá erum við bara að tala um persónur.
En það var rigningin sem ég ætlaði að segja ykkur frá. Níutíu daga tímabili í Björgvin var nefnilega nýlokið þegar við mættum þangað á fimmtudag í síðustu viku. Það rignir að meðaltali 200 daga á ári í þessari frændborg okkar í Vestur-Noregi. Skór og yfirhafnir eru alltaf blautar, götur eru rakar en niðurföllum er smekklega og skynsamlega raðað út um alla borg. Þeir eru klárir frændur okkar og þeir búa í fallegri og smekklegri borg, þó þar búi ekki fleiri en 300.000. Þeir voru öfundsverðir að þessari stemningu sem þeir áttu, svo mikil menning, svo mikið eitthvað samfélagslegt sem þeir bjuggu að. Fallegar byggingar, torg og einfaldar samgöngur. Einfaldur hlutur eins og bjóða upp á stand sem maður stingur regnhlífinni sinni í þegar maður gengur inn í verslun eða kaffihús er smekklegt og samfélagslegt. Að sama skapi er það samfélagslegt að taka af manni yfirhafnir og poka og geyma þær þegar maður mætir í verslunarmiðstöð í Kraká, Póllandi, þar sem allir þurfa að klæða sig vel. Á Íslandi eru ekki almenningsamgöngur, bílastæði, smekkleg torg eða hönnun borgarinnar þannig að hægt sé að njóta fegurðar þegar gengið er um borgina. Nema ég sé kannski orðinn firrtur íslensku samfélagi, samt borgaði ég 800 krónur fyrir stakan Burger King hamborgara í Bergen og fannst það lítið mál.
Annars var herbergi Íslendinganna vinsælt á ráðstefnunni. Við buðum upp á íslenska drykki og íslenska kojustemningu. Við kenndum íslensk orð og vorum dugleg að upphefja íslenska siði. Hátindur ferðarinnar var án efa þegar íslenski hópurinn endurflutti Gleðibankann í sinni eigin útfærslu í tilefni þess að það eru 21 ár síðan Ísland fyrst tók þátt í Eurovision og þá í Bergen. Skemmtileg tilviljun að Eiríkur hinn norski hafi svo unnið keppnina heima, en ég túlkaði einmitt framlag hans í Bergen hér áður fyrr á ógleymanlegan hátt, á sama stað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)