Pottþétt systkini

SystkininÞessi fáranlega mynd hér til hliðar er af eldra setti systkinahópsins sem ég tilheyri. Tilefnið var hin árlega afhending möndluverðlauna, óvenjulega formlegt enda afhendingin haldin í janúar.

Ég var með þessari systur minni á leið til Reykjavíkur á sunnudagskvöld úr sveitinni. Vegna þess að loftnetið á bílnum mínum er brotið náum við ekki almennilegu útvarpi og þurftum að leita að geisladiskum á gamla heimilinu okkar. Við fundum safndiskinn Pottþétt 97 með furðulegustu og skemmtanamestu lögum sem ég hef lengi hlustað á. Ef ég væri gleggri á tónlist gæti ég sagt ykkur hvað þetta hét allt saman sem við hlustuðum á. En margt af því voru lög sem við dönsuðum í Stjörnusal Félagsheimilisins á Flúðum þegar það var diskótek í Flúðaskóla. Í dag fer fram dönskukenla í þessum sal. Gott að fólk man enn hvernig á að skemmta sér.

Á Selfossi var rifjað upp á keppni sem við systkinin kepptum reglulega í hér áður fyr. En keppnin felst í því að kaupa tvo mjög þykka mjólkurhristinga sem eru svo sognir með röri. Sá vinnur sem á udan klárar. Þessu fylgir höfuðverkur, magakuldi, þurrar varir og þurrt munnhol. Sá sem virkilega leggur sig fram líður eins og það séu sogblettir innan á munni og koki eftir átökin.

En keppnina vann ég.


Lómar við Þjórsá

Lómar við ÞjórsáÁ sunnudaginn var ég á mótmælafundi gagnvart frekari virkjunum í Þjórsá í Árnesi. Málið tengist mér mjög mikið enda á fyrirhugað Hagalón ekki bara að taka af okkur stóran hluta af ræktuðu landi heima á bænum mínum heldur á það líka að taka ættareyjuna okkar, Hagaey, að mestu undir lónið. Það var svo gaman á þessum fundi, margir tóku til máls og flest voru erindin skemmtileg. Finnbogi frá Minni Mástungu sagði það svo réttilega í sínu erindi, að það væri gaman að sjá hvað margir mættu á fundinn, en skemmtilegast hefði þó verið að þurfa ekki að halda hann.

Margir sem mættu á fundinn eru bloggvinir mínir hér hjá Mogganum, Siggi frændi, Haukur tjaldur en vænst þótti mér að sjá hana Guðfríði Lilju sem einnig flutti kveðju úr þéttbýlinu á fundinum. Ég mætti sjálfur ásamt því að vera fylgdarmaður langömmu minnar, Jóhönnu Jóhannsdóttur, sem verður 93 ára á þessu ári. Hún er elsti íbúi sveitarinnar og hefur búið þar alla sína ævi. Hún skrifaði hugleiðingar sem lesnar voru upp á fundinum og fór vel í fólk.

Meðfylgjandi mynd heitir Sumarnótt, lómar við Þjórsá og er máluð af Jóni Stefánssyni, fæddum 1881 á Sauðárkróki. Myndin er ein sú stærsta sem að Listasafn Íslands á og er í fastasýningu þess í öndvegi salarins. Þið þekkið hana örugglega mörg, en hún er til í eftirprentun hjá mörgum heimilum. Ein eftirprentunin er komin út til Kaupmannahafnar og mun þar prýða væntanlegt heimili Héðins.

Myndefni málverksins er það sem fyrir augu ber út um stofugluggan heima í sveitinni minni. Þetta var einmitt það sem við stórfjölskyldan hafði fyrir augum í hádeginu fyrir fundinn, það sem að verður fórnað með fyrirhuguðu lóni. Til þess að stappa stemningu í ættingja, bauð mamma til hrossakjötsáts fyrir fundinn. Ég vil að Morgunblaðið taki það upp hjá sér að birta myndir af því fólki, á forsíðu, sem er að berjast fyrir því að ræktarlöndin okkar, bóndabýli, sumarbústaðalönd, landshlunnindi og útivistarsvæði verði fórnað til umhverfisspillandi iðnaðar.


Ég lagði grunn að skrímsli

ANSOBarnsleg spenna heltekur mig allan þessa dagana. Mér líður líkt og ég hafi drukkið of mikið kaffi, mér er hlýtt að innan og hjartsláttur er óreglulegur. Ofan á allt þetta bætist strengir eftir lyftingar í Laugum klukkan hálf sjö að morgni og Rope Yoga í Garðabæ að kvöldi. Báðar æfingar eru gerðar með samstarfsfreyjum, báðar snillingar. Ég hef aldrei verið eins einbeittur og nálægur hugsunum mínum og tilfinningum en þegar ég lá á bundinn á bakinu og gerði æfingar í Garðabæ með fimmtugum konum í Rope Yoga. Fannst þetta meiriháttar, þarf að fara aftur.

Barnsleg spenna tengist utanför minni til Bóheima (dregið af Björgvin, þýtt af Bergen, samanber Þrándheimar) í Noregi. Þar ætla Norrænir STK (skammstöfun fyrir samkynhneigða, tvíkynhneigða og kynskiptra) stúdentar að hittast og ráða ráðum sínum. Fundurinn er á vegum ANSO, norræna samtaka okkar sem var hugarfóstur mitt og hjálpði við að koma því á koppinn. Nú eru samtökin orðin það stór að það nær til allra Norrænu ríkjanna utan Grænlands og fundir eru orðnir mjög reglulegir með stuttu millibili. Ég mun því fara til Oslóar á miðvikudag eða fimmtudag þar sem för minni verður haldið áfram til Bergen. Næturlíf Oslóar verður svo skoðað á sunnudagskvöld.


Árshátíð samsteypunnar

IMG_0219Ég held að það hafi verið í september á síðasta ári sem ég fór fyrsta að hlakka til þess að fara mæta á árshátíð hjá samsteypunni sem ég vinn hjá, ef ég hlakkaði ekki bara strax til í lok þeirrar síðustu. Hátíðin var að þessu sinni öll hin glæsilegasta en það var samstarfsfólk og skemmtiatriði sem gerðu kvöldið ógleymanlegt, matnum hefði mátt sleppa.

Kvöldið byrjaði með því að við vorum nokkur lausráðin sem hittumst á undan í smá rólegri stemningu heima hjá einni flugfreyjunni þar sem opnaðar voru nokkrar flöskur, svo fólk væri nú komið í gír þegar það mætti til fordrykkjar á hátíðinni sjálfri. Ég hafði leigt mér smóking í tilefni kvöldsins, enda er ég hættur að passa í nokkurn hlut eftir að ég hrapaði niður um þrjú númer í jakkafötum, eða úr 52 í 46. Mér fannst ég stórglæsilegur í þessum klæðnaði með svarta slaufu og linda, en það fannst eiginlega öllum öðrum líka.

Undir borðhaldi voru skemmtiatriði frá Stelpunum, Íslenska dansflokknum, Stórsveit Reykjavíkur, Páli Óskari, Þórunni Lárusdóttur og Agli Ólafssyni. Eftirrétt var rétt lokið þegar ég bauð varaformanni flugfreyjufélagsins upp í dans. Við vorum ekki lengi að vera með fyrstu pörunum út á gólfið en á þeim stað var ég næstum alla næstu þrjá tíma. Ég hef ekki töluna á fjöldanum á þeim flugfreyjum sem ég dansaði við undir hljómum Stórsveitarinnar og söng Þórunnar og Palla, en þær voru ófáar. Ég sveiflaði þeim svo mikið að smókingurinn minn var farinn að blotna í gegn af svita, en þetta var bara byrjunin, því svo fóru karlmenn að bjóða mér upp í dans. Og það engir af verri kantinum, þetta voru gæjar sem kunnu almennilega samkvæmisdansa og höfðu meiri kunnáttu en hliðar saman hliðar. Einn þeirra stóð algjörlega upp úr, enda bauð hann mér fjórum sinnum á gólfið og ég honum einu sinni. Í eitt skiptið leiddi hann mig frá öðrum enda salarins að dansgólfinu þar sem við tókum upp hald og stór radíus í kringum okkur fibaðist sjónin að sjá tvo karlmenn taka upp hald, en hann hélt uppteknum hætti alveg þangað til hann sveiflaði mér aftur á bak, tvisvar í röð - en þá var fólk farið að pískra þónokkuð. Þeirri lotu lukum við svo á því að vanga, ótrúlega eftirminnilegt.

Að kvöldi loknu þakkaði ég samstarfskonu minni, eiginkonu hans, kærlega vel fyrir lánið á kappanum og ég vona hreinlega að hún muni mæta með hann að ári í árshátíðina til þess að við getum báðir skemmt okkur konunglega á dansgólfinu. Sambýliskonu þótti ég vera glaður yfir skrítnum hlut þegar ég var að reyna lýsa því fyrir henni hversu stórkostleg upplifun þetta væri. Sjálfri nefnilega þætti henni ekkert skemmtilegt við það að fara skyndilega að dansa við konu i samkvæmisdansi. En ef hún hefði dansað samkvæmisdans við konu frá þriggja ára aldri og fær svo loks að dansa samkvæmisdans við karlmann, tuttugu árum seinna, þá er það bara eitthvað svo æðisleg tilfinning.

Meðfylgjandi er mynd af mér og deitinu mínu. 


Dittungar og ástand

2006-05-07 Ferming Heiðrúnar 023Mamma mín átti afmæli í gær. Í tilefni þess vafði hún kjúklingabringum inn í grísafitu (bacon). Ég er ánægður með að mamma mín skuli af tillitsemi við mig hafa ákveðið að afmælismaturinn hennar yrði samsettur af fæðutegundum sem eru ekki í uppáhaldi hjá mér þegar hún vissi að ég kæmi ekki í mat. Venjulega fæ ég nautakjöt, lítið eða miðlungssteikt, ef til vill hefur hún lítið átt af birgðum enda hef ég verið óvenjulega iðinn við að fara í sveitina eftir að ég hætti að ráfa um landganga Leifsstöðvar. Annars megið þið sjá eldra settið af mæðgunum í fjölskyldunni minni á myndinni hér til hliðar. Held að þetta sé bara besta myndin sem ég á af þeim, því þær standa nokkuð kjurar og haga sér nokkuð vel.

Er annars að átta mig á því að 22 eininga nám í HÍ er meira en ég hef hingað til tekið að mér, vil því biðja alla þá sem hafa verið að hringja í mig undanfarið og ég ekki svarað afsökunar. Hringið eftir miðjan maí, sendið tölvupóst eða fylgist með frekari upplýsingum hér.

Ég er með eindæmum smámunasamur á mörgum sviðum og hef ótrúlegustu dittunga um ýmsa hluti. Til dæmis finnst mér afar mikilvægt að sem flestir bankareikningar standi á heilu þúsundi. Þess vegna finnst mér ný þjónsta Glitnis um að eiga afganginn upp að næsta þúsundi einstaklega áhugaverður kostur, það myndi allavega spara mér vinnuna við að leiðrétta og stemma upphæðir á reikningunum sjálfur.

Var annars að læra og undirbúa mig undir tíma í gær. Þurfti að vafra og leita á netinu til þess að finna mér nánari upplýsingar um málefni í texta sem ég skildi ekki. Af einstakri heppni rakst ég á umræðuvef sem vakti áhuga minn. Það var kannski ekki umræðan sjálf sem að heillaði mig heldur þessi hér en í framhaldinu hef ég séð fram á brýna þörf að læra frönsku. Mig vantar því einhverja kennslu í þeim fræðum.

Í öðrum fréttu er að sambýlingurinn er komin með inflúensuna. Það er mjög gaman að verða vitni að þessum hamförum og þá er ég ekki að tala um veikindi hennar, heldur hvað hún er dugleg að elda sér mat. Hér er búið að steikja fisk, sjóða fisk, steikja hamborgara og baka brauð. Ég hef sjálfur ekkert verið heima en matarlystin hjá Önnu rýkur upp við aukin hita og þörfin hjá henni við að þrifa dempast niður á móti. Það eru því mikil viðbrigði hér í Kópavogsborg.


Þorrahelgi

thorramaturÉg er svo hamingjusamur með helgina mína. Mér finnst hún hafa heppnast svo vel og farið fram úr öllum væntingum. Föstudagurinn var að vísu hausverkjamorgun sem fór fljótt með því að fara í klippingu, herðanudd og kynæsingarúðunarendurnýjun. Rétt fyrir kaffi er svo nýja klippingin sýnd í Laugum með miklum eftirtektum hjá viðstöddum. Þá næst er rokið til við að keyra aftan á mig því afturendinn á bæði mér og bílnum eru orðnir svo ómóstæðilegir. Þegar stuttri skýrslutöku er lokið er stefnumótið mitt sótt og keyrt heim í sveitina til þess að mæta með mér til Þorrablóts. Það hafði verið kynnt svo rækilega á tölvupóstsendingum meðal ættmenna að ég myndi mæta ekki maður einsamall á þetta blót, að enginn lét sig vanta. Enginn hafði hugmynd um að leynigesturinn myndi reynast aldagömul vinkona mömmu sem er með þeim hressari í bransanum, þannig að ekki reyndist fólk vonsvikið þó það hefði búist við öðru kyni.

Á þorrablóti Gnúpverja var framreiddur einstaklega góður þorramatur í þetta skiptið. Svo góður að ég þurfti að fara þrjár súrmatsferðir áður en ég fékk mér svolítið af hangikjöti og smjöri með smá flatköku undir. Ég lagði ekki í hákarlinn enda hafði ég farið í hákarlsátukeppni við mömmu mína heima áður en við lögðum af stað til blóts. Mamma vann léttilega, enda drakk hún púrt og brennivín með, en ég mjólk.

Eftir að mat og skemmtiatriðum lýkur er nauðsynlegt að fara dansa. Hringdans er snilldarlega vel heppnuð leið til þess að hrista fólk fram á gólf í fyrsta dansi, allir sækja þangað í tilgang og enginn þarf að líta flótalegur í kringum sig að nokkur skuli glápa. En ég leyfði mér að sleppa við hringdansinn allt kvöldið í þetta skiptið, maginn var of fullur af hrútspungum. Í þriðja eða fjórða dansi sátum við nokkur ættmennin ásamt vinkonu mömmu og horfðum á konu sem var greinilega að dansa við óðan mann, sem við sáum að vísu ekki. Konan er nokkuð hávaxin og slánalega vaxin, en klædd í himinbláa peysu sem flaksaðist vel þegar henni var hent til og frá. Það var greinilega vel haldið í aðra hendina á henni en með hinni hendinni fálmaði hún út í loftið með skelfingarsvip og var tilbúin með lausu hendina ef hann myndi missa stjórn á henni eða hún rekast utan í fólk, stóla eða borð.

Pabbi minn er lágvaxnari en þessi kona, það sáum við þegar hann gekk út úr þvögunni og dansinn var búinn, fólk hafði stillst og beið eftir næsta lagi. Það var nefnilega þá sem við áttuðum okkur á því að það var pabbi minn sem hafði verið duglegastur á dansgólfinu það skiptið. Glottið á pabba mínum var þvílíkt þegar hann leit í kringum sig leitandi, að næsta fórnalambi. Glottið breyttist í bros þegar hann gekk að vinkonu mömmu, sem ég hafði dregið með mér á þorrablótið og átti alls ekki von á þesskonar dansi þegar hún þáði boðið mitt á saklaust sveitarþorrablót.

Daginn eftir fékk ég svo boð um að koma ásamt nokkrum vinum upp í bústað með útsýni yfir Hreðarvatn. Ég held við höfum eytt nærri sólarhring í bústaðnum, þar af fóru um það bil 12 tímar í heitan pott, að er virðist. Einnig náðum við að grilla einn besta mat sem ég hef tekið þátt í að búa til en í framhaldi af því að spila teikni, leik og leiraspilið. Það er kannski ekkert mál að leika Ólaf Ragnar Grímsson, en þegar maður þarf að leira hann flækist málið...

Sunnudagurinn endaði svo í stuttri heimsókn í Laugar en í beinu framhaldi af því fórum við sambýlingarnir á rómantískan kvöldverð á Silfur, fyrrum Hótel Borg og göngutúr um miðbæinn. Ég er svo glaður með helgina að ég auglýsi eftir því hreinlega að fólk í kringum mig leitist við að eyða öllum helgum með mér á svipaðan hátt. 


Tvíburarnir eru að fara

IMG_0147Ég mætti ekkert í Laugar undanfarna tíu daga en fór svo í fyrsta skipti í gær. Þetta var ekki út af því að ég nennti ekki að mæta eða að ég væri sár yfir því að gleraugunum, tveimur pörum af linsum, augnkrem, dagkrem, rakakrem, sturtusápa, þvottapoki, tannbursti og tannkremi var stolið af mér í búningsklefa WorldClass. Nei það er nefnilega ekki ástæðan. Heldur voru tvíburnarnir búnir að vera hjá mér, nokkurskonar pabbahelgi, eins og þið sjáið á meðfylgjandi mynd. Farði, krem og púður voru vopn mín til þess að fela sem mest af þessum roða, útbrotum og viðbjóði. Neðri vörin var tvöföld sú stærð sem hún venjulega er. En núna er þetta allt að lagast, pabbahelginni er að ljúka og ég fer að komast almennilega frá.

Atvinnuleysi flugfreyjunnar er samt orðið ansi leiðigjarnt, óvíst hversu lengi það muni standa. Hápunkturinn var án efa þegar sumarfreyjur hittust síðasta föstudagskvöld til þess að gera sér glaðan dag. Ég kom heim löðursveittur eftir danssveiflur og trúnaðarsamtöl, þrjá skemmtistaði á sex klukkutímum. Hef svo síðan þá verið hundþreyttur og eiginlega bara eftir mig. Næst fæ ég mér í glas, til þess að sjá hvort ég verði betri dagana á eftir.

Annars hefur mig dreymt mikið að ég sé farinn að vinna aftur. Ég er sem dæmi að fara á Þorrablót í sveitinni minni næstu helgi. Það er yfirleitt mjög gaman á Þorrablótinu en í draumnum mínum sem ég átti um daginn var Þorrablótið byrjað þegar ég skyndilega fer í það að undirbúa fólk fyrir flugtak. Svo virðist vera að Félagsheimilið með 900 manns innanborðs ætlaði að taka á loft. Þegar ég var búinn að fá alla til þess að halda fast í diskinn sinn, setjast ofan á hnífapörin og setja glösin sín og flöskurnar undir stólinn hjá mótsessunaut sínum, fór ég inn á klósett, settist þar niður, skorðaði mig af, tók upp farsímann og hringdi í flugstjórann, sagði honum að Þorrablótið væri tilbúið.

Sem betur fer vaknaði ég þegar ég áttaði mig á því að ég þurfti að pissa. Sem betur fer áttaði ég mig á því að ég væri ekki staddur á klósettinu í félagsheimilinu heldur uppi í rúmi, svo ég fór framúr.


Prestar

IMG_0046Eftir því sem ég eldist skildi ég síður tilgang presta. Ég skil tilgang þeirra áður fyrr en þetta er eitt af þeim stofnunum sem ekki hafa þróast með afgangi samfélagsins. Mér finnst þeir oft minna mann frekar á það liðna en nútímann og hvað þá framtíð mína. Kannski tók steininn úr þegar biskupinn fór að tjá sig um málefni sem snerta mig. Held að það hafi verið í framhaldi af því sem ég ákvað að rækta mína trú sjálfur án tengsla við þjóðkirkjuna.

En það var ekki sem ég ætlaði að segja ykkur frá, heldur prestinum sem ég kynntist úti í Póllandi. Já, það eru margar sögurnar sem ég skulda ykkur frá Póllandi. Presturinn átti herbergi við hliðina á mínu, en leiðir okkar lágu fyrst saman í andyrinu þar sem ég beið eftir afganginum af áhöfninni á aðfangadag til þess að fara saman og fá okkur hádegismat. Þessi gamli og viðkunnalegi maður kom inn, hárið var hvítt, ekki einu sinni ljóst heldur bara hvítt. Hann var í svörtum ullarfrakka sem náði honum niður fyrir hné, hann gekk örlítið hokinn. Hann leit örlítið út eins og mörgæs við fyrstu kynni, því hann gekk líka með hendur niður með síðum. Svo þegar hann kom nær sá ég sultardropann sem hafði myndast á stóra nefinu hans og hann hafði augu sem eitt sinn voru blá en voru nú með gráu yfirbragði. Ég brosti til hans því mér fannst hann skondinn. Hann tók strax eftir mér og lagði af stað í átt til mín. Andyrið er stórt og ég sat í sófa lengst til hliðar. Þegar hann kom nær heilsaði hann mér og lauk kveðjunni með því að þurrka dropann á nefinu á handarbakið á prjónuðu svörtu vettlingunum sínum. Ég svaraði ekki kveðjunni fyrr en ég var búinn að horfa á eftir handarbakinu fara aftur í sína stöðu, á síðuna.

Ég man í dag ekkert hvað hann heitir þessi blessaði maður, en það var gaman að kynnast honum. Við hittumst reglulega eftir þetta og spjölluðum svolítið saman, hann var greinilega svo einmana og hafði lítið fyrir stafni. Ég gladdi hann greinilega heilmikið með þessum stuttu samræðum sem ég átti við hann. Hann bjó í Bandaríkjunum en átti ættir sínar að rekja til Póllands, hingað var hann sendur í prestaskóla og hafði orðið mikill vinur Jóhannesar Páls páfa heitins. Þegar ég spurði hann hvernig honum liði að eyða jólunum á hótelherbergi sagði hann mér að það væri skrítið, en hann og Jóhannes Páll voru vanir að eyða öllum aðfangadegi saman og snæða saman um kvöldið. Sér þætti því aldrei hátíðlegra en að vera í Vatikaninu um hátíðarnar, ef ég man söguna hans rétt. En hann var þangað kominn til þess að eyða jólunum með örfáum pólskum prestum sem voru saman í prestaskólanum í Kraká.

Hann hlakkaði samt til og þótti það mikill heiður að vera boðinn af Kardinálunum til hátíðarkvöldverðar í Vatikaninu að kvöldi þriðja í jólum. Hann var samt eitthvað svo stefnulaus, einmana og leiður. Hann vildi ekki segja mér frá núverandi páfa, en talaði fallega um gamlan vin sinn sem greinilega hefur nærri verið hans nánasta fjölskylda. Mér þykir svolítið vænt um þennan skrítna prest sem var svo ljúfur, rólegur en það ruglaður að hann talaði í hringi og spurði sömu spurningarinnar mörgum sinnum.

Eftirá að hyggja hefði verið skemmtilegt að fá hjá honum heimilisfang og skrifa honum eitt bréf, en líklega er best að hitta þennan gamla mann aldrei aftur. Samkvæmt hans trú þá verður eitthvað aðeins heitara á þeim stað sem ég fer á eftir þessa tilvist heldur en hans.


Kraków

ckÉg var að koma frá því að tala við Héðinn í síma. Ég er staddur á hótelherberginu mínu í Krakow. Það var svo gaman að heyra í Héðni að ég stökk upp í rúm, nakinn og hoppaði í því þangað til einn fóturinn gaf sig. Og nei, það var enginn fótur á mér sem gaf sig. Í dag er síðasti dagurinn í Kraká og þið hafið nákvæmlega ekkert heyrt í mér. Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki komist í það að stinga niður penna hérna, þið verðið að afsaka það.

Í gærkvöldi fór ég á djammið. Mér þótti borgin ekkert draugaleg eða fátt fólk á ferli, fyrr en núna eftir að hátíðirnar voru búnar. Hérna í Kraká voru nefnilega jafn margir á götunum á jólunum og heima á venjulegri helgi. En eftir að hátíðinni lauk hefur hérna ekki verið þverfótað fyrir fólki. Núna er þetta víst orðinn eðlilegur fjöldi fólks á götum úti. Það er gaman að sjá borgina svona iðandi af lífi. Sætu strákarnir eru líka komnir út á göturnar, úr jólamatnum frá mömmu sinni. Í tilefni þess að ég fékk skyndilega trú á pólska kynbræður mína í ljósi þess að hafa séð þá framúrstefnulega fallega nokkra, ákvað ég að leita uppi kynvillta skemmtistaði. Ég hafði samband við belgískan vin minn sem býr nú í Osló en hefur búið hér í Kraká í nærri tvö ár. Hann sagði mér að drífa mig nú þegar á Kitsch, en þar væri aldrei nokkur maður svikinn um skemmtun og athygli. Ég er auðvitað ekki jafn kunnugur borginni og hann, var nærri búinn að gefast upp á að leita uppi þennan stað þegar hann spyr mig á hvaða götu hótelið mitt væri. Það var þá sem við áttuðum okkur á því að þessi besti kynvillti skemmtistaður Pólverja er hinum megin við götuna, fyrir ofan bankann. Hann er opinn daglega frá fimm að kvöldi til fimm að morgni, eða á þeim tímum sem ekki er verið að vinna í bankanum...

Ég var því ekki lengi að herma eftir Dóróteu í Oz, fara í mína bestu skó og slá hælunum saman. Framundan var ein athyglisverðasta nótt sem ég hef upplifað, ekki af því að ég skemmti mér svona vel eða fékk svona mikla athygli, heldur vegna þess að pólskir hommar haga sér öðruvísi. Hugtakið hommahækja hefur allt aðra merkingu hér og er ekki fylgihlutur, heldur staðalbúnaður. Ef að einhver hommi var búinn að daðra of mikið eða vera daðrað of mikið við, var viðkomandi hommi ekkert of lengi að leita að sinni hommahækju, sleikja á henni hálsinn og enda í hörkusleik við hana -  með galopin augun að fylgjast með þér, á meðan þeir jöfnuðu sig á því að vera fylgja tilfinningum sínum og dansa við annan strák, eða strjúka honum.

Homminn og hækjan virtust alveg jafn lítið eða mikið fá út úr þessum sleikjum, en að loknum sleik þá var yfirleitt gengið í sitthvora áttina. Homminn á barinn og stelpan áfram að dansa við vinkonur sínar. Ég hélt á tímabili að þetta væri leikrit eða fólk á einhverju sterkara en vínanda. Kvöldinu lauk svo með því að ég var einn af eftirlegukindunum og gamla korter-í-þrjú stemningin var alsráðandi. Sá allra fyllsti hafði þá fengið í sig kjart til þess að ræða við mig, en mundi aldrei í lok setningar á hverju hún hafði byrjað. Sama hvort hann sagði hana eða ég.

Fyrir utan skemmtistaðinn upplifði ég hegðun drengja sem ég skildi ekki hvort væri feimni, óframfærni, daður eða "krús". Ég hafði bara áhyggjur á því að einhverjir myndu taka hegðun minni sem boð á hótelið hinum megin við götuna.


Egilsstaðir

BM2005020Ég er staddur á mínu þriðja herbergi á Egilsstöðum á nærri 18 klukkustundum. Rétt eftir miðnætti í gærkvöldi fékk ég herbergi á Hótel Héraði, þar sem Skötulyktin vakti mig snemma um morguninn og dró mig fram í dýrasta saltfisk sem ég hef nokkru sinni borðað. Hálft þriðja þúsund kostar að borða hér tvo þunna saltfiskbita með köldum og hálf hráum kartöflum, rétt eftir að maður fær að skola þessu niður er manni tilkynnt að skipta þarf um hótel. Ég þurfti því að pakka niður jólakjólnum aftur og einkennisklæðunum ofan í tösku og var sendur yfir í Gistiheimilið Egilsstaði.

Þar tók við dónalegasta framkoma sem ég hef nokkru sinni upplifað. Okkur var þá komið á herbergi, tvö og tvö saman. Á meðan önnur herbergi voru þrifin var farið á rúntinn. Hérna á Egilsstöðum er saltfiskur kannski hátt verðlagður en kleinur eru á ansi hagstæðum kjörum, sextíu krónur stykkið. Þær eru líka heimabakaðar, ansi góðar. Við sátum hér á huggulegasta kaffihúsi Te og Kaffi, nutum kaffi og spjall við heimafólk áður en haldið var í Office 1 til þess að áhöfnin gæti nú keypt sér jólabók. Þegar ég er svo kominn aftur upp á Gistiheimilið er loksins komið herbergi handa mér og ég náði að afklæðast og spóka mig berrassaður. Ég er það ennþá þegar þessi færsla er skrifuð.

Það er búið að seinka fluginu mínu til Póllands og við förum ekki fyrr en á tíunda tímanum í kvöld, þetta er vegna þess að flugvélin kom seint frá Keflavík og hefur svo tafist í förum sínum til og frá Póllands hingað til. Við verðum því aldrei komin til Kraká fyrr en undir morgun á aðfangadag, ef ekkert fer úrskeiðis hingað til. Við þurfum að læsa og innsigla vélinni úti í Póllandi, það getur tekið einhvern tíma ofan á allt annað. Svo verður nærri tveggja tíma rútuferð til Kraká þar sem við munum eyða jólunum.

Áðan fengum við að skoða matseðilinn sem verður í boði á hótelinu annaðkvöld. Tólf smáréttir samkvæmt pólskri hefð, einn fyrir hvern postula, snæddir í réttri röð. Pólverjar borða líka ekkert á aðfangadag fyrr en fyrsta stjarna sést á himni. Það verður gaman að upplifa öðruvísi jól.

Ég ætla að leggja mig núna, ná klukkutíma blundi áður en við ætlum að fara á Hamborgarabúllu Tómasar, þar sem vonandi verður snæddur hreindýraborgari. Ef ég næ ekki að blogga neitt meir fyrir jól, vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þakka öll samskipti á árinu sem er að líða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband